Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) Kviku fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi nam 18,8% á árinu 2024, samanborið við 10,2% árið 2023. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir árið 2024 sem birt var fyrir skömmu.
Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi nam 5.817 milljónum króna á árinu 2024, samanborið við 3.009 milljónir króna árið 2023 og eykst um 93,3%.
Hagnaður samstæðunnar í heild eftir skatta nam 8.150 milljónum króna á árinu 2024, samanborið við 4.033 milljónir króna árið 2023 og eykst um 102%.
Hreinar vaxtatekjur námu 9.681 milljón króna á árinu 2024, samanborið við 8.021 milljón króna árið 2023 og hækkuðu um 21%. Vaxtamunur var 3,9% á árinu 2024, samanborið við 3,8% árið 2023.
Hreinar þóknanatekjur námu 6.137 milljónum króna á árinu 2024, samanborið við 5.916 milljónir króna árið 2023 og hækkuðu um 220 milljónir króna frá fyrra ári eða 3,7%. Aðrar rekstrartekjur námu 1.367 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við 915 milljónir króna árið 2023 og hækkuðu um 452 milljónir króna frá fyrra ári eða 49%.
Rekstrarkostnaður nam 10.608 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við 10.785 milljónir króna árið 2023 og lækkar um 1,6%.
Stjórn bankans leggur til að greiddur verði 0,44 króna arður á hlut eða 2.050 milljónir króna, að teknu tilliti til eigin bréfa, á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024. Arðgreiðslan nemur 25% af hagnaði samstæðu Kviku eftir skatta sem er til samræmis við arðgreiðslustefnu bankans. Ennfremur mun stjórn leggja til sérstaka arðgreiðslu í kjölfar viðtöku á söluverði TM auk þess að hefja kaup á eigin hlutum sem bankinn hefur fengið heimild til frá Seðlabanka Íslands að uppfylltu því skilyrði að sala á hlutum bankans í TM sé lokið.
Haft er eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku í tilkynningu að síðasta ár hafi verið ár umbreytinga hjá félaginu.
„Mikill viðsnúningur varð í rekstri Kviku, eftir talsverðar áskoranir síðastliðin tvö ár, og stór skref voru stigin við stefnumörkun og straumlínulögun félagsins með sölu á TM til Landsbankans, sem við vonumst til þess að hljóti endanlegt samþykki á næstu vikum. Horfur á nýju ári eru prýðilegar. Markaðsaðstæður virðast talsvert betri en fyrir ári síðan, vextir eru byrjaðir að lækka og Kvika stendur frammi fyrir margvíslegum tækifærum, bæði á Íslandi og í Bretlandi. Við söluna á TM gefst okkur bæði tækifæri til þess að greiða umtalsverða fjármuni til hluthafa og nýta það eigið fé sem eftir situr til að stækka lánabækur félagsins. Með stærri lánabók nýtum við innviði okkar betur og aukum stöðugar tekjur án samsvarandi kostnaðaraukningar, auk þess að styrkja enn frekar stoðir bankans með dreifðara eignasafni. Við stefnum jafnframt að því að efla starfsemi okkar á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar með það að markmiði að auka þóknana- og fjárfestingatekjur,“ er haft eftir Ármanni.