Hagnaður af rekstri Íslandsbanka árið 2024 nam 24,2 milljörðum króna samanborið við 24,6 milljarða króna árið á undan. Arðsemi eigin fjár var 10,9% á ársgrundvelli á síðasta ári en nam 11,3% árið 2023.
Hreinar vaxtatekjur ársins námu 47,3 milljörðum króna, sem er samdráttur um 2,8% á milli ára. Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 1,2% á milli ára, og námu 13,1 milljarði króna árið 2024, samanborið við 13,3 milljarða króna árið 2023.
Hrein fjármagnsgjöld voru 338 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við fjármagnstekjur að fjárhæð 241 milljón króna árið 2023. Aðrar rekstrartekjur námu 2.282 milljónum króna árið 2024, samanborið við 570 milljónir króna árið 2023.
Stjórnunarkostnaður var 27,6 milljarðar króna fyrir árið 2024, ef frá er talin 470 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 25,7 milljarða króna stjórnunarkostnað ársins 2023, ef frá er talin gjaldfærsla að fjárhæð 960 milljónir króna vegna stjórnvaldssektar.
Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,1 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans í mars. Það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt bankanum heimild fyrir allt að 15 milljarða króna endurkaupa eigin hluta að markaðsvirði. Stjórn bankans mun óska eftir endurnýjaðri heimild til endurkaupa á eigin bréfum að því marki sem lög leyfa á aðalfundi bankans í mars 2025.
Haft er eftir Jóni Guðna Ómarssyni bankstjóra Íslandsbanka í tilkynningu að fjórði ársfjórðungur 2024 hjá bankanum einkenndist einna helst af því að Seðlabanki Íslands hóf loks vaxtalækkunarferli, eftir langt tímabil hárra vaxta.
„Áhrifa þessa gætti mjög á verðbréfamarkaði á fjórðungnum og nam hækkun OMX Iceland 15 vísitölunnar um 15,8% á tímabilinu. Afkoma Íslandsbanka var góð og nam hagnaðurinn 6,3 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi og var arðsemi eiginfjár 11,2%. Var það þrátt fyrir að verðbólguójöfnuður næmi 193 milljörðum króna í lok árs. Inn í góða afkomu bankans á fjórðungnum spilar hækkun á virði fjárfestingareigna og jákvæð áhrif virðisbreytinga útlánasafns. Fram undan eru spennandi tímar við innleiðingu nýrrar stefnu þar sem markmiðið er að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og vera hreyfiafl til góðra verka. Áfram er mikil áhersla á að efla fjárhaglega heilsu og mun bankinn halda áfram öflugu fræðslustarfi. Samstarf Íslandsbanka og VÍS opnar á ný tækifæri í þjónustu við okkar viðskiptavini og við hlökkum til að móta það samstarf og kynna það nánar á komandi vikum og mánuðum," er haft eftir Jóni Guðna.