Fjölbrautaskóli Suðurnesja var í gær valinn ríkisstofnun ársins 2024 í flokknum níutíu starfsmenn eða fleiri. Hitt húsið varð hlutskarpast í flokki borgar- eða bæjarstofnana með 50 starfsmenn eða fleiri.
Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis – stéttarfélags í almannaþjónustu, Kjara- og mannauðssýslunnar, mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar auk stofnananna og vinnustaðanna sjálfra.
Valið var kynnt við hátíðlega athöfn á Hilton Reykjavík Nordica í gær.
Titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun ársins (efstu fimm stofnanirnar í hverjum stærðarflokki hljóta sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnanir) hljóta þeir starfsstaðir sem þykja skara fram úr að mati starfsfólks. Byggist valið á rúmlega sautján þúsund svörum starfsfólks stofnana ríkisins, vinnustaða Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga auk fyrirtækja og sjálfseignarstofnana.
Um er að ræða eina stærstu vinnumarkaðskönnun landsins en Gallup sér um framkvæmdina. 35% þátttöku þarf á hverjum vinnustað til að komast á listann.
Í flokknum 40-89 starfsmenn ríkisstofnana bar Þjóðskrá Íslands sigur úr býtum og í flokknum færri en 40 starfsmenn ríkisstofnana varð Kvikmyndasafn Íslands hlutskarpast.
Í flokknum 25-49 starfsmenn bæja eða borgar varð Leikskólinn Lyngheimar í efsta sæti og í flokknum færri en 25 starfsmenn bæja eða borgar varð félagsmiðstöðin Sigyn hlutskörpust.
Hástökkvari ársins í flokki ríkisstofnana var menningar- og viðskiptaráðuneytið sem fór upp um 39 sæti milli ára. Hástökkvari hjá bæ og borg var Íbúðakjarninn Rökkvatjörn sem fór upp um 66 sæti á milli ára.
Stofnun ársins 2024 í flokknum sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu var valin Heilsustofnun NLFÍ.
Jakobína Þórðardóttir, teymisstjóri stofnunar ársins hjá Sameyki, segir í samtali við Morgunblaðið að valið á stofnun ársins sé ótrúlega skemmtilegt verkefni.
Hún segir að starfsfólk svari spurningum um aðstæður á vinnustað og mælingin nái yfir níu ólíka þætti. Með þessu náist heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi vinnustaðanna.
Hún segir að markmið valsins sé að hvetja stjórnendur áfram og gera þá meðvitaðri um umgjörðina í kringum mannauðsmálin á vinnustaðnum.
Verkefnið er viðamikið að sögn Jakobínu og hefur undirbúningur staðið síðan í ágúst sl. Í honum felst gerð spurningalista meðal annars. „Stór hluti af könnuninni eru sömu spurningar ár eftir ár til að fá sömu viðmið en svo leggjum við einnig þemaspurningar fyrir fólk. Í ár spurðum við spurninga um EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi) áætlanir á vinnustöðunum.“
Aðspurð segir hún að auðvitað sé leiðinlegt fyrir starfsmenn og stjórnendur að lenda neðarlega á listanum. „En vonandi líta menn á það sem hvatningu, enda verðlaunum við stofnanir sem eru hástökkvarar hvers árs.“
Spurð um það hvernig könnunin nýtist að öðru leyti segir Jakobína að ríkisendurskoðandi hafi til dæmis hringt í sig í fyrra. „Hann sagði mér að þessi könnun væri eitt af þeim gögnum sem hann nýtti sér þegar starfsstaðir væru skoðaðir.“