Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár segir að félagið sjái þau tækifæri sem felist í að vera með tryggingafélag sem sé ótengt fjármálafyrirtækjum. Hann ræðir það og fleira í viðtali við ViðskiptaMoggann.
Spurður í hvaða tekjustoð félagið sjái mesta vaxtarmöguleika segir Hermann að gögnin sýni fram á að ungt fólk sé oft ekki nægilega vel tryggt, sérstaklega hvað líf- og sjúkdómatryggingu varðar.
„Mikilvægi þessara trygginga er óumdeilt og sjáum við tækifæri til að þétta betur vernd hjá þessum hópi okkar viðskiptavina og í samfélaginu,“ segir Hermann.
Horfur fyrir árið 2025 hjá Sjóvá gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1.700-2.400 milljónir króna og samsett hlutfall 93-95%. Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingarstarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu nemi 8,5% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu.
Hermann segir að árið fari vel af stað hjá félaginu en nýverið var tilkynnt að Sjóvá væri efst tryggingarfélaga í Íslensku ánægjuvoginni, áttunda árið í röð.
„Það er mikilvægur vitnisburður um afrakstur stefnu okkar og mikil viðurkenning á þjónustustefnu og sterkri fyrirtækjamenningu. Þessi viðurkenning er allt annað en sjálfsögð og við vitum að þarfir viðskiptavina okkar breytast mjög hratt og að það er okkar hlutverk að halda áfram að þróast í takt við þær. Það er skýr sýn hjá okkur að viðhalda þessari stöðu með þeim öfluga mannauði sem við búum yfir og munu verkefni fram undan einkennast af því,“ segir Hermann.
Greinina í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.