Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Argentínu létu á sér skiljast um helgina að þeir myndu ákæra forseta landsins til embættismissis. Tilefnið er að Javier Milei birti færslu á sínum persónulega notendareikningi á X (áður Twitter) á föstudag þar sem hann hampaði rafmyntinni $Libra og sagði hana til þess fallna að geta örvað hagkerfi landsins og hjálpað smáfyrirtækjum að dafna.
Rafmyntin sem um ræðir fór fyrst í loftið í september á síðasta ári og var sama sem verðlaus fram á föstudag en ummæli Mileis ýttu verði myntarinnar upp í nærri fimm dali. Nokkrum klukkustundum síðar hafði verðið tekið dýfu og var farið undir einn dal, með tilheyrandi tjóni fyrir þá sem fjárfestu í myntinni.
Milei eyddi færslunni fimm klukkustundum eftir að hann birti hana og í annarri færslu kvaðst hann ekki hafa kynnt sér rafmyntina í þaula, en eftir að hafa skoðað málið betur þætti honum vissara að auka ekki hróður myntarinnar.
Á laugardag birtist síðan færsla á reikningi forsetaembættisins á X þar sem greint var frá því að færsla föstudagsins hefði verið hugsuð sem vanabundin umfjöllun um áhugaverð frumkvöðlaverkefni. Kom þar einnig fram að forsetinn hefði fyrirskipað að rannsókn skyldi fara fram á því hvort einhver í ríkisstjórninni – og forsetinn sjálfur þar á meðal – hefði hegðað sér ósæmilega eða átt í einhverjum viðskiptum með rafmyntina og mögulega brotið einhver lög.
Milei kveðst hafa setið tvo fundi þar sem rafmyntin var rædd, fyrst í október og síðan í janúar, en hann segist ekki hafa haft beina aðkomu að útgáfu rafmyntarinnar.
Í umfjöllun New York Times um glappaskot Mileis segir blaðið að málið minni á rafmynt sem herbúðir Donalds Trumps gáfu út skömmu áður en hann tók við forsetaembættinu í janúar. Var þar um að ræða svokallaða „memecoin“, sem mætti útleggja á íslensku sem grínmynt eða tískumynt, en slíkar rafmyntir eru yfirleitt gefnar út meira í gamni en mikilli alvöru. Höfða þær stundum til braskara og spákaupmanna sem eygja gróðatækifæri í þeim miklu verðsveiflum sem oft einkenna þennan flokk rafmynta. Áætla greinendur að kaupendur hafi greitt marga milljarða dala í viðskiptum með Trump-myntina og rauk verð hennar upp á skömmum tíma en hrundi síðan. Að sögn Reuters voru það ekki síst rafmyntakauphallir sem högnuðust á vinsældum Trump-myntarinnar og áætla greinendur að fyrsta hálfa mánuðinn eftir að rafmyntin fór í loftið hafi kauphallirnar þénað 100 milljónir dala í formi sölu- og kaupþóknana.
Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 17. febrúar.