Eins og Sveinn Sölvason, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Emblu Medical, útskýrði í samtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku er Embla nú í þriðja fasa líftíma síns, að breytast úr því að vera vörumiðað fyrirtæki yfir í að vera félag sem nálgast hreyfanleika á almennan hátt, og þá sérstaklega varanlegar hreyfanleikaáskoranir í stærra samhengi, eins og Sveinn orðar það. „Við erum í dag næststærsta fyrirtæki heims á þessu sviði á eftir þýska fyrirtækinu Ottobock.“
Spurður nánar um mikilvægi þess að leggja nú aukna áherslu á þjónustu, segir Sveinn að hver einstaklingur þurfi í raun að koma einu sinni til tvisvar á ári til að láta skoða eða uppfæra þær lausnir sem viðkomandi er með frá fyrirtækinu, enda oft um séraðlaganir að ræða fyrir hvern og einn. „Það í raun styrkir okkar samkeppnisstöðu sem vörufyrirtækis að vera sterkt þjónustufyrirtæki líka. Það getur hjálpað okkur að mynda sterkari sambönd við viðskiptavini okkar, og við getum hjálpað þeim að tileinka sér breytingar sem eru að eiga sér stað í iðnaðinum.“
Spurður að því hvort líkja megi viðskiptasambandinu við það sem tæknifyrirtækið Apple á við eigendur iPhone-síma, sem Apple-fyrirtækið nær að selja í sífellu nýjar útgáfur af, kinkar Sveinn kolli. „Já, það er margt líkt með því. Því þetta snýr að tækniframförum. Við erum sífellt að þróa vörur sem eru betri en þær sem fyrir eru og notendur okkar vilja eðlilega njóta góðs af því.“