Stjórn bandaríska gervigreindarrisans OpenAI hafnaði á föstudag kauptilboði Elons Musks.
Í byrjun síðustu viku gerði hópur fjárfesta, með Musk í broddi fylkingar, 97,4 milljarða dala tilboð í félagið sem m.a. þróar gervigreindarhugbúnaðinn ChatGPT og DALL-E.
Musk tók þátt í stofnun OpenAI árið 2015, í félagi við Sam Altman forstjóra fyrirtækisins, og vakti upphaflega fyrir þeim að reksturinn yrði ekki hagnaðardrifinn en OpenAI í staðinn rekið eins og góðgerðarfélag „til hagsbóta fyrir mannkynið allt“ eins og það var orðað í tilkynningu þegar félagið var sett á laggirnar.
Musk sagði sig úr stjórn félagsins árið 2018 og hefur síðan þá átt í deilum við stjórnendur OpenAI um breytingar á rekstrarmódeli fyrirtækisins sem árið 2019 steig það skref að stofna hagnaðardrifið dótturfélag m.a. til að liðka fyrir aðkomu Microsoft og fleiri aðila sem vildu fjárfesta í verkefninu fyrir marga milljarða dala. Síðan þá hefur æ meiri áhersla verið lögð á að reka OpenAI eins og hvert annað tæknifyrirtæki sem verði á endanum skráð á markað.
Síðasta sumar höfðaði Musk mál á hendur OpenAI þar sem hann gaf Sam Altman að sök að hafa villt um fyrir sér þegar félagið var stofnað og platað sig til að fjárfesta í verkefninu á fölskum forsendum. Stjórnendur OpenAI hafa hins vegar haldið því fram að Musk hafi á sínum tíma verið fylgjandi því að breyta OpenAI í hagnaðardrifið félag en segja Musk hafi orðið afhuga verkefninu þegar honum varð ljóst að honum myndi ekki takast að vera ráðandi hluthafi.
Árið 2023 setti Musk eigið gervigreindarfyrirtæki á laggirnar, xAI, sem hefur þróað mállíkanið Grok og myndsmíðaforritið Aurora. Greindi Musk frá því um helgina að þriðja kynslóð Grok færi í loftið á mánudag. Í erindi sem hann flutti á dögunum fullyrti Musk að Grok 3 yrði betra en nokkurt annað gervigreindarforrit á markaðinum. ai@mbl.is
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 17. febrúar