OK býður nú upp á þjónustu sem byggir á varaleið Farice um gervihnetti.
Lausnin tryggir lágmarksnetsamband við útlönd ef fjarskiptasamband um alla sæstrengi við Ísland rofnar. Þjónustan er sérstaklega hönnuð með mikilvæga innviði og stofnanir í huga og veitir þeim aukið öryggi í fjarskiptum.
Fyrsti viðskiptavinur OK sem nýtir sér þessa nýju lausn er Kaupfélag Skagfirðinga.
Kemur þetta fram í tilkynningu og haft eftir Birni I. Björnssyni, verkefnastjóra hjá Kaupfélagi Skagfirðinga:
„Við leggjum mikla áherslu á stöðugleika í rekstri okkar og viljum tryggja að við getum sinnt okkar hlutverki óháð aðstæðum. Lausnin frá OK fellur vel að okkar öryggiskröfum og styrkir innviði okkar enn frekar.“
Varaleiðin byggir eingöngu á gervihnattasamböndum og er hönnuð fyrir mikilvæga innviði en ekki almennan markað og í tilkynningu er haft eftir Halldóri Áskeli Stefánssyni, framkvæmdastjóra Skýja-og rekstrarþjónustu OK:
„Við erum virkilega stolt af því að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa nýju varaleið. Hún virkjast sjálfkrafa ef fjarskiptasamband rofnar og krefst engrar tæknivinnu á staðnum – það er einfalt, öruggt og mikilvægt.“