Búið er að innsigla veitingastaðinn Kastrup á Hverfisgötu vegna skulda við Skattinn.
DV greindi fyrst frá.
Fram kemur í fréttinni að lögreglumenn og fulltrúi Ríkisskattsjóra hafi mætt á staðinn klukkan 13.30 og vísað fólki út sem sat að snæðingi. Í kjölfarið hafi veitingastaðurinn verið innsiglaður.
mbl.is hefur ekki náð í Jón Mýrdal Harðarson, eiganda Kastrup, en Vísir hefur eftir honum að fyrirtækið skuldi skatt. Aftur á móti sé fyrirtækið ekki gjaldþrota heldur gangi reksturinn vel og skuldi engum öðrum.
Hann segist hafa tök á að greiða skuldina og hyggst ganga frá málinu á mánudaginn.
„Og halda svo ótrauður áfram. Mér bauðst að semja um skuldina en ég náði ekki í neinn. Hræðilegt að þurfa að loka. Tvö hundruð manns bókaðir um helgina. Þetta setur mig í mjög erfiða stöðu að missa allar þær tekjur,“ sagði hann við Vísi.