Líklegt er að smásöluverð á raforku til almennings og fyrirtækja hækki um næstu áramót ef marka má þróun á heildsölumarkaði með grunnorku – sem er uppistaðan í raforkuinnkaupum smásala og vegur þyngst í kostnaðarverði þeirra.
Meðalverð grunnorkusamninga fyrir árið 2026 hefur hækkað um 9% frá fyrra ári og stendur nú í tæplega 8,3 kr./kWst.
Hafa ber í huga að viðskiptum með raforku er langt frá því að vera lokið fyrir árið. Enn er langt til áramóta og von á frekari viðskiptum sem munu hafa áhrif á verðmyndun. Þá bendir vatnsstaða í miðlunarlónum Landsvirkjunar til betri aðstæðna en síðustu tvö ár, sem gæti haft lækkandi áhrif á verð. Sömuleiðis hefur svokölluð aflþjónusta Landsvirkjunar áhrif en það er nýjung á markaði.
Á móti kemur að mikið er af eldri, ódýrari raforkusamningum sem eru að renna út, sem áður höfðu haldið heildarkostnaði smásala niðri. Með því er líklegt að þrýstingur á verð aukist.
Að jafnaði vekur grunnorka mesta athygli þegar kemur að innkaupum smásala, þeir kaupa hins vegar einnig umtalsvert magn mánaðarblokka svokallaðra. Ef miðað er við síðustu söluferli Vonarskarðs, þá gæti meðalverð grunnorku til sölufyrirtækja hækkað upp í um 10,3 kr./kWst með vsk., sem er hærra en það smásöluverð sem flest raforkusölufyrirtæki bjóða í dag. Þegar við bætast öll önnur orkukaup, s.s. kaup á mánaðarblokkum, stundarafmagni, aflþjónustu og almennri álagningu fyrirtækjanna, mun það skapa þrýsting á smásala að hækka verð, annars horfa þeir upp á mögulegt tap.
Sala grunnorku fyrir árið 2026 á markaðstorginu Vonarskarði hefur verið öflug og þegar hefur verið selt um 30% meira magn en fyrir árið 2025. Hins vegar hóf Vonarskarð ekki starfsemi fyrr en í apríl 2024 og því gætu viðskipti sem fóru fram áður í beinum samningum milli aðila ekki endurspeglast í þessum samanburði. Annar aðili, Elma orkuviðskipti, tók til starfa í mars og er í eigu Landsnets.
Morgunblaðið leitaði til Hjálmars Helga Rögnvaldssonar, forstöðumanns viðskiptaþróunar og orkumiðlunar hjá On, sem vildi ekki tjá sig um þróun verðs, en nefnir:
„Með opnun raforkumarkaða á síðasta ári hefur gegnsæi viðskipta stóraukist, bæði hvað varðar raforkuverð og framboðs- og eftirspurnarmagn af raforku. Þetta aukna gegnsæi mun án efa setja umræðuna um raforku á hærra plan á Íslandi. Ofan á þetta hefur aflþjónustan gert það að verkum að nýting orkuauðlinda hefur aukist og minnkar líkur á sóun í kerfinu.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.