Hispurslausir sprotar í nýsköpunarviku

Stefán Baxter með hópi starfsfólks fyrirtækisins. Dr. Óli Páll stendur …
Stefán Baxter með hópi starfsfólks fyrirtækisins. Dr. Óli Páll stendur vinstra megin við Stefán í grænum bol. Ljósmynd/Aðsend

Hugbúnaðarhúsið Snjallgögn heldur opinn viðburð í Húsi Máls og menningar við Laugaveg, miðvikudaginn 14. maí kl. 14:00.

Fram kemur í tilkynningu að viðburðurinn sé hluti af Iceland Innovation Week 2025, sem er árleg uppskeruveisla íslenskra sprotafyrirtækja. Á viðburðinum munu forsvarsmenn þessa fimmtán manna sprotafyrirtækis stíga á svið og deila reynslu sinni af þróun gervigreindarlausna á hispurslausan hátt með áherslu á hindranir og hrasanir.

Fyrir svörum verða þeir Stefán Baxter, stofnandi og forstjóri Snjallgagna, og Dr. Óli Páll Geirsson, meðstofnandi og yfirmaður gagnavísinda hjá fyrirtækinu. Stefán kveður þá félaga ætla að miðla lærdómi af viðburðaríkri vegferð sem hafi einkennst af krákustígum og útúrdúrum, enda sé ferðalag nýsköpunarfyrirtækja aldrei beinn og breiður vegur.  Að sögn Stefáns verður öllum spurningum úr sval svarað og erfiðar spurningar verða boðnar sérstaklega velkomnar. 

,,Við Óli eigum engin leyndarmál og ætlum á viðburðinum að veita innsýn í þau raunverulegu verkefni og áskoranir sem fylgja því að þróa hugbúnaðarlausnir sem byggja á gervigreind. Þetta verður opið og hreinskilið samtal um það sem hefur gengið upp og það sem hefur farið öðruvísi en áætlað var. Vonandi skemmtileg sögustund með nytsömum heilræðum, sem munu spanna allt frá fjármögnun, rekstri og tekjum til tæknilegra viðfangsefna og tungumálalíkana,” er haft eftir Stefáni í tilkynningunni. 

Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn, en óskað er eftir skráningu gesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK