Yfir fimmtíu þúsund notendur hafa sótt sér Heima-appið og notendum fjölgar stöðugt að sögn Ölmu Dóru Ríkarðsdóttur, framkvæmdastjóra og eins stofnenda fyrirtækisins. Hægt er að greiða fyrir áskrift að Heima Premium en þeir sem ekki eru áskrifendur geta notað Heima frítt með minni virkni.
Heima-appið er notað til að einfalda heimilishaldið og hvetja börnin til virkrar þátttöku. Geta þau safnað stigum fyrir unnin heimilisstörf og fengið umbun.
20% notenda eru Hollendingar og 80% Íslendingar. Appið sló í gegn í Hollandi eftir óvænta kynningu í sjónvarpi.
Eins og sagt var frá á mbl.is á dögunum hefur Heima nýlokið við 140 milljóna króna fjármögnun sem leidd var af vísissjóðnum Frumtak Ventures en englasjóðirnir MGMT Ventures og Tennin tóku einnig þátt. Alma segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fjármögnunin muni styðja við áframhaldandi útbreiðslu og markaðssetningu, bæði hér á landi og erlendis.
Hún segir að fyrirtækið hafi náð undraverðum árangri á stuttum tíma. „Lausnin okkar er að umbylta heimilislífi fólks,“ segir Alma.
Hún segir að Heima-appið minnki streitu í hinu daglega lífi.
Spurð um tildrögin að stofnun fyrirtækisins segir Alma að hún og meðstofnandi hennar, Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir, hafi upphaflega kynnst þegar þær voru saman í leikskóla. „Við endurnýjuðum svo kynnin í Boston í Bandaríkjunum árið 2020. Við komumst að því að okkur langaði báðar að gera eitthvað sem gæti haft jákvæð áhrif á heiminn. Sigurlaug er hugbúnaðarsérfræðingur og MBA og ég er viðskiptafræðingur og sérfræðingur í jafnréttismálum.“
Alma flutti heim í covid-faraldrinum og hóf störf sem sérfræðingur í Stjórnarráðinu. „Þar fæddist hugmyndin að Heima. Ég var að skoða jafnréttismál og ójafna verkaskiptingu innan heimilisins. Á heimsvísu eru 75% heimilisstarfa unnin af konum. Það er mikið til af lausnum til að auðvelda vinnu á vinnustöðum en engar sambærilegar lausnir eru til fyrir heimilið. Heimilisstörfin og uppeldi barna eru í raun stærsta teymisverkefnið sem fólk tekur sér fyrir hendur í lífinu.“
Hugmyndin var mótuð á servíettu í kaffispjalli þeirra Ölmu og Sigurlaugar. „Sex vikum síðar, haustið 2020, vinnum við svo frumkvöðlakeppnina Gulleggið.“
Þar með varð ekki aftur snúið. „Við vorum bara búin að gera frumgerð af forritinu á þessum tímapunkti en samt voru 1.500 manns komin á biðlista,“ segir Alma. „Þetta var ótrúlegt.“
Í kjölfarið fóru þær Sigurlaug að fá sendar margvíslegar ábendingar um viðbætur í appið.
Fljótlega bættist Tristan John Frantz í stofnendahópinn og fyrirtækið fékk styrk frá Tækniþróunarsjóði. „Árið 2022 hættum við öll í dagvinnunni til að einbeita okkur að Heima.“
Að sögn Ölmu kom lausnin svo formlega út vorið 2023.
Spurð um reynsluna síðan þá segir Alma að verkefnið og fyrirtækið hafi þróast að mörgu leyti eins og stofnendur hafi séð það fyrir sér. Þó hafi margt komið á óvart. „Í upphafi einblíndum við mikið á verkefnalista yfir rútínuverkefni heimilisins eins og algengt er í teymisforritum á vinnumarkaði. Við byrjuðum að fá tíu fjölskyldur í prófanir. Það var mjög áhugavert að þau voru öll mjög dugleg að prófa til að byrja með en svo fjaraði notkunin út. Eftir miklar vangaveltur áttuðum við okkur á því að fólki líkaði betur við sjónrænna viðmót. Í dag er Heima þannig að hvert og eitt rútínuverkefni er hringur sem svo fyllist eftir því sem verkefnið klárast oftar,“ útskýrir Alma. „Notkunin jókst mjög hratt eftir að þetta viðmót var sett upp.“
Sem dæmi gæti einn hringurinn heitið „Elda kvöldmat“ og skiptist þá í sjö hluta. Hver og einn fjölskyldumeðlimur hefur sinn lit og þegar t.d. dóttirin útbýr kvöldmatinn fyllist út í einn hinna sjö reita með hennar lit. „Með þessu sést á mjög einfaldan hátt hver er að gera hvað og allir fá stig fyrir sín verkefni.“
Ein af nýjungunum í forritinu er leikir. „Fjölskyldmeðlimir keppa sín á milli og sjá stöðuna í leiknum inni í forritinu. Krakkar geta samið við foreldra um viðurkenningu í skiptum fyrir stigin sín og í nýrri verðlaunabúð Heima eru viðurkenningar eins t.d. frostpinnar, skjátími, vasapeningar eða annað.“
Alma segir að Heima styðji þannig við foreldra, sem oft þurfi að ýta á og hvetja börn til þátttöku í heimilisstörfum. „Þetta hefur leitt til þess að krakkarnir sýna meira frumkvæði. Við erum að heyra ótrúlegar sögur af unglingum sem eru farnir að þrífa klósett jafnvel oft á dag,“ segir Alma og hlær.
Þannig hvetur forritið til aukinnar samvinnu og frumkvæðis innan heimilisins eins og Alma útskýrir.
Allt þetta skilar sér í meiri ánægju hjá uppalendum og betra andrúmslofti að sögn Ölmu. „Þetta tekur hugræna byrði af verkefnastjóra heimilisins og losar um spennu.“
Alma segir að stærsta áskorunin í þróuninni hafi verið að einfalda hlutina. „Það getur verið flókið að einfalda,“ segir Alma og brosir.
Fyrirtækið leitar nú að tveimur nýjum starfsmönnum. Að þeim meðtöldum verða fimm að vinna hjá Heima. „Þetta er fyrsta stækkunin okkar.“
Um viðskiptamódelið segir Alma, eins og fram kom í byrjun, að hægt sé að nota appið frítt en þá þurfa notendur að horfa á auglýsingar í viðmótinu. „Fyrir fulla virkni er hægt að kaupa áskrift, eitt gjald á fjölskyldu. Svo bjóðum við fyrirtækjum að kaupa aðgang fyrir starfsfólk. Það stuðlar að meira jafnvægi starfs og einkalífs og auknu jafnrétti.“
Alma segir aðspurð að vel hafi gengið að halda fólki sem notendum. „Tölurnar segja okkur að þeir sem hafa prófað einu sinni séu líklegir til að koma aftur. Og eftir því sem við bætum við fleiri nýjungum því betur gengur okkur að halda í viðskiptavini.“
Hún segir að lokum að markmið Heima sé að verða besta fjölskylduapp í heimi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.