Útboð á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka er hafið. Útboðið hófst klukkan hálf níu í morgun og stendur yfir þar til klukkan 17 á fimmtudaginn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Til stendur að selja 20 prósent eftirstandandi hlut ríkisins í bankanum.
Útboðið fer fram í þremur hlutum þar sem einstaklingar með íslenska kennitölu njóta forgangs.
Alþingi samþykkti fyrr í þessum mánuði breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka þar sem bætt var við þriðju tilboðsbókinni, tilboðsbók C.
Í þeirri tilboðsbók fá eftirlitsskyldir fagfjárfestar sem gera tilboð fyrir eigin reikning með eignir umfram 70 milljarða kr., hefðbundnara úthlutunarferli.
Það var gert að fenginni ráðgjöf söluráðgjafa með það að markmiði að tryggja aðkomu allra fjárfestahópa og auka líkur á virkari þátttöku stórra fjárfesta án þess að ganga á forgang einstaklinga.