Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Það hefur lengi verið viðkvæði í íslenskum byggingariðnaði að eftirlit sé of flókið, ábyrgð óljós og ágreiningur um byggingargalla allt of algengur. Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem kom út í vikunni, bendir á skelfilegan kostnað tengdan göllum í húsnæði.
Niðurstöður HMS eru sláandi en í yfir 70% nýframkvæmda sem hófust árið 2023 skortir áfangaúttektir og stöðuskoðanir byggingarfulltrúa. Áætlaður árlegur kostnaður vegna byggingargalla er talinn geta numið allt að 25 milljörðum króna. Þetta er algerlega óviðunandi fyrir samfélagið í heild.
HMS leggur til að byggingarstjórakerfið verði lagt niður og ytra eftirlit fært frá byggingarfulltrúum sveitarfélaga yfir til óháðra skoðunarstofa í umboði stofnunarinnar. Þar með verður ábyrgð fagaðila gagnvart verkkaupa skýr og ábyrgðarkerfið einfaldara. Hönnuðir og iðnmeistarar beri áfram ábyrgð á sínum verkum samkvæmt skaðabótareglum.
Að auki verði núverandi starfsábyrgðartryggingar aflagðar og tekin upp sérstök byggingargallatrygging, bundin eingöngu við íbúðarhúsnæði, sem gildi í 10 ár. Með því fær neytandi raunverulega vernd og betra úrræði þegar upp koma gallar. Þetta er í takt við það sem gerist á Norðurlöndunum, þar sem slík tryggingakerfi hafa verið innleidd með góðum árangri.
Í Danmörku hefur byggingargallatrygging verið í gildi árum saman og hefur reynst vel við að bæta réttarstöðu neytenda og draga úr ágreiningi um byggingargalla. Tryggingin nær yfir tiltekin tímabil eftir afhendingu og tryggir að gallar sem koma í ljós séu bættir án tafar. Í Noregi hefur verið lögð áhersla á að styrkja byggingareftirlit og tryggingakerfi til að vernda neytendur og auka gæði bygginga. Þar hefur verið unnið að því að auka ábyrgð fagaðila og bæta eftirlitskerfi.
Ef vel tekst til gæti þjóðhagslegur sparnaður hlaupið á milljarðatugum árlega. Það er fátt mikilvægara en traust á húsnæðismarkaði og gæðum bygginga. Með skýrara kerfi og sanngjarnari ábyrgð verða verktakar og fagaðilar sem standa sig vel heldur ekki dregnir niður af þeim sem gera það ekki.
HMS hefur með þessari skýrslu opnað nauðsynlega og tímabæra umræðu. Nú er það á ábyrgð stjórnvalda, iðnaðarins og sveitarfélaga að grípa boltann og vinna að innleiðingu breytinga til að auka gæði og öryggi í íslenskum byggingariðnaði.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.