Heildareftirspurn útboðsins á hlutum í Íslandsbanka nam 190 milljörðum króna, en heildarvirði útborðsins á útboðsgenginu nam 90.576.000.746 krónum. Var umframeftirspurn því um 100 milljarðar króna.
Útboðinu er nú lokið, en fjármálaráðuneytið greindi frá því fyrr í dag að ákveðið hefði verið að selja allan hlut íslenska ríkisins í bankanum.
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að veruleg eftirspurn hafi verið innanlands og bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, innlendir og erlendir, sýnt útboðinu mikinn áhuga.
„Við úthlutun verður sérstök áhersla lögð á að tryggja þátttöku einstaklinga og því verða áskriftir í tilboðsbók A ekki skertar. Auk þess var leitast við að laða að stóra eftirlitsskylda fagfjárfesta þar sem eftirspurn var umtalsverð,“ segir í tilkynningunni.
Fjöldi almennra hluta sem seldir voru í útboðinu eru 850.000.007 með magnaukningu.
Útboðsgengi tilboðsbókar A var fast 106,56 krónur á útboðshlut. Útboðsgengi tilboðsbókar B og tilboðsbókar C var 106,56 krónur á hlut þar sem tilboð í tilboðsbók A fóru verulega umfram grunnmagn útboðsins.
Tilboð sem bárust á grundvelli tilboðsbókar A njóta forgangs við úthlutun. Með tilliti til forgangs tilboðsbókar A er gert ráð fyrir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun vegna tilboðsbókar A þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða. Komi til þess að frekari hlutir séu í boði eftir úthlutun til einstaklinga munu fjárfestar í tilboðsbók B og C fá upplýsingar um úthlutun á miðvikudagsmorgun, þann 21. maí 2025.