Almenningur skráði sig fyrir næstum öllum hlutum í Íslandsbanka sem ríkið seldi í útboði sínu sem lauk í gær. Yfir 31 þúsund manns keyptu hluti í bankanum og var meðalupphæðin um 2,8 milljónir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu um niðurstöður í Íslandsbankaútboðinu.
Tilboð í tilboðsbók A námu 88,2 milljörðum króna, og er áætlað að þeim hlutum verði úthlutað til 31.274 einstaklinga, með fyrirvara um aðlögun og leiðréttingar. Heildarvirði útboðsins á útboðsgenginu nemur 90,6 milljörðum króna.
Fjárfestar sem gerðu tilboð í tilboðsbækur B og C stóðu fyrir eftirstandandi hluta af heildareftirspurn útboðsins sem nam um 190 milljörðum króna. Tilkynningar um úthlutun á þeim hlutum sem eftir standa, að lokinni úthlutun til tilboðsbókar A, verða sendar þeim aðilum miðvikudagsmorguninn 21. maí 2025, með hliðsjón af þeim úthlutunarreglum sem settar hafa verið.
Útboðinu lauk kl. 17 í gær. Ráðuneytið tilkynnti í gær um að ákveðið hefði verið að stækka útboðið upp í allan 45,2% eftirstandandi hlut ríkisins.
Fram kom í gær frá ráðuneytinu að ákvörðunin hefði verið tekin í ljósi „umtalsverðrar heildareftirspurnar og fordæmalausrar eftirspurnar innanlands."