Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Fyrir hálfum öðrum áratug bjó ég í Casablanca og vingaðist þar við afar almennilegan dýralækni; múslima í húð og hár sem bað sínar bænir fimm sinnum á dag og lagði mikið á sig til að hjálpa ferfætlingunum. Eitt skiptið barst í tal menningarmunurinn á milli Evrópu og Arabaheimsins og lýsti ég fyrir honum hvað ég væri orðinn þreyttur á endalausum árekstrum á milli mín og innfæddra.
Ég sagði honum frá hvernig fyrstu árekstrarnir urðu strax við lendingu í Marokkó, þegar ég þurfti að leysa hundinn minn úr tolli. Agalega vinalegur miðaldra karl gaf sig þá fram, kynnti sig sem starfsmann flugvallarins, og bauðst til að aðstoða mig við umstangið. Ekki veitti mér af hjálpinni enda var ferlið miklu flóknara en mig hafði grunað og mér rétt tókst að ná hundinum út áður en tollafgreiðslan lokaði þann daginn.
Ég var afar þakklátur, og hélt að maðurinn væri svona afskaplega góður í sínu starfi, en langaði að gauka að honum nokkrum dínörum fyrir greiðann. En þá kom annað hljóð í strokkinn og varð ljóst að maðurinn var ekki að liðsinna mér af góðmennskunni og fagmennskunni einni saman. Það hvellsauð á karlinum sem fram að þessu hafði ekki verið neitt annað en brosið og blíðan: þetta væri alls ekki nóg!
Ég man ekki hvort ég tvöfaldaði eða þrefaldaði upphæðina, en á einu augabragði lækkaði skaphitinn hjá manninum úr hundrað niður í núll.
Þessi stíll í samskiptum er Íslendingum afskaplega framandi. Við æsum okkur ekki upp nema við meinum það, og erum þá lengi að ná blóðþrýstingnum aftur niður. Núna veit ég að víða í Arabalöndunum er það partur af samskiptum fólks og hversdagsprútti að virðast æstur og reiður, en er oftast hálfgert leikrit. Ég varð steinhissa, og verð að játa að ég var svolítið lengi að jafna mig á látunum, en ég var reynslunni ríkari.
Myndlíkingin sem ég bar undir dýralækninn var ef til vill ekki sú snjallasta sem mér hefur dottið í hug, en eru Evrópubúar og Arabar ekki svolítið eins og hundar og kettir? Það þýðir ekki alveg það sama þegar hundur dillar skottinu og þegar köttur gerir það, svo að auðvitað kemur stundum upp misskilningur á milli þeirra, en bæði hundunum og köttunum gengur yfirleitt gott eitt til.
Mér skilst af fréttum frá Íslandi að vandamál hafi komið upp í kringum karlaskara frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Þessir menn hafa gengið til liðs við stétt íslenskra leigubílstjóra, með misgóðum árangri, og sögurnar sem heyrast eru ekki fallegar. Af lýsingum að dæma virðist hegðunin og viðskiptahættirnir minna á það sem fólk myndi búast við í Kaíró frekar en í Keflavík, og ekki nema von að Íslendingum sé brugðið.
Ég þykist vera agalega fyndinn þegar ég grínast við vini mína að það hjálpi örugglega til að jafna skiptin að Ísland skuli á móti hafa sent mig – bandbrjálaðan, samkynhneigðan frjálshyggjumann – hingað til Túnis til að spilla innfæddum. Bismillah!
Þessi vandi, sem virðist skyndilega hafa snöggversnað á Íslandi, er nokkuð sem aðrar þjóðir Evrópu hafa lengi þurft að glíma við, og virðast núna fyrst farnar að þora að taka föstum tökum. Réttsýnispólitíkin (sem var nýlega jarðsungin) hefur nefnilega aftrað stjórnmálamönnum og fjölmiðlum frá því að benda á hið augljósa, og það hefur hreinlega þótt jafngilda kynþáttafordómum að færa það í tal að innflytjendum geti stundum fylgt alvarleg vandamál, og að mikilvægir hagsmunir séu í húfi ef samfélög asnast til að missa stjórn á málaflokknum.
Umræðan byrjaði á jaðrinum, með mönnum á borð við Pim Fortuyn, Jörg Haider og Nigel Farage, en hefur núna smám saman fengið aukinn hljómgrunn á miðjunni – þó ekki væri nema vegna þess að miðjusæknu flokkarnir sjá að kjósendur eru órólegir og eiga innflytjendamálin stóran þátt í því að atkvæðin streyma nú til stjórnmálamanna á borð við Meloni á Ítalíu, Weidel í Þýskalandi, Le Pen í Frakklandi og Geert Wilders í Hollandi – að ógleymdum sjálfum Trump.
Á dögunum vann umbótaflokkur Farage stórsigur í bresku sveitarstjórnarkosningunum og var fylgi verkamanna- og íhaldsflokksins á sumum stöðum svo lítið að sumir stjórnmálaskýrendur hafa spurt hvort gömlu valdaflokkarnir tveir kunni að vera á síðasta snúningi. Þetta nægði til að Keir Starmer tók loksins af skarið og lýsti því yfir í byrjun vikunnar að innflytjendastefnan yrði hert til muna, en innflytjendamálin hafa einmitt verið helsta baráttumál Farage og félaga.
Starmer hyggst tækla vandann í nokkrum skrefum og ætti innstreymi innflytjenda að hafa a.m.k. helmingast árið 2029. Er þetta algjör U-beygja hjá Starmer sem fyrir nokkrum árum var afskaplega dæmigerður, alþjóðlega sinnaður vinstrimaður og fjölmenningarsinni. Nú fjalla ræður hans um að aðkomufólk sé stundum ekki nógu duglegt að aðlagast bresku samfélagi og siðum, að innstreymið valdi óbærilegum þrýstingi á húsnæðismarkaði og velferðarkerfið sé að sligast.
En málið er ekki alveg svona einfalt. Innflytjendur eru nefnilega – heilt á litið – hvalreki fyrir þau lönd þar sem þeir ákveða að setjast að.
Innflytjendur auka aðlögunargetu atvinnulífsins, fylla upp í mannauðsgötin, hjálpa til við að jafna út hagsveiflur, og stækka neytendahópinn.
Meira að segja þeir sem vinna láglaunastörfin geta leyst mikla efnahagslega krafta úr læðingi: þökk sé ómenntuðu húshjálpinni frá Hondúras getur hámenntaða húsmóðirin í New York farið út á vinnumarkaðinn og rakað inn peningum í stað þess að snúast í kringum börnin, hundinn og húsverkin.
Móttökulandið þarf heldur ekki að borga fyrir skólagöngu innflytjandans: hann mætir klár í slaginn. Alla jafna vilja innflytjendur vinna, frekar en að leggjast upp á kerfið, og þeir greiða að jafnaði meira til samneyslunnar en þeir taka út.
Ekki nóg með það heldur sýna bæði bandarískar og evrópskar tölur að innflytjendur eru að jafnaði löghlýðnari en heimamenn. Íslenskur prófessor, sem m.a. kennir tölfræði og líkindareikning, benti á þetta á Facebook á dögunum, vísaði bæði í bandaríska og evrópska rannsókn máli sínu til stuðnings, og hlaut mikið lof fyrir hjá réttsýnum netverjum. Ég fékk ekkert svar þegar ég benti henni á að gallinn við rannsóknirnar sem hún valdi væri að mikill munur er á samsetningu innflytjenda í Bandaríkjunum og Evrópu, og veikleiki evrópsku rannsóknarinnar að hún safnar öllum innflytjendum í eitt mengi og reiknar svo einfaldlega út meðaltalið. Tölur annars staðar frá sýna einmitt að ákveðnum hópum innflytjenda fylgja – því miður – meiri líkur á vandræðum, árekstrum og aðlögunarvanda.
Í Bandaríkjunum kemur mikill meirihluti innflytjenda frá SA-Asíu og Rómönsku Ameríku, og eru að jafnaði algjörir fyrirmyndarborgarar. Í Evrópu benda fáanlegar tölur til að bróðurpartur innflytjenda (ef við drögum frá innflytjendur frá öðrum Evrópuríkjum) komi frá Afríku og Mið-Austurlöndum og aðlagist misvel.
Fólk er alls konar, og allir eru hin bestu skinn inn við beinið, en það er menningarmunur á þjóðum og fullkomlega eðlilegt að hafa ólíkar væntingar til hópa fólks eftir uppruna. Á Íslandi fór t.d. nýlega fram óvísindaleg samanburðartilraun þessu til sönnunar: þúsundir Venesúelabúa streymdu inn til landsins á skömmu tímabili, voru afskaplega vel þokkaðir og heimamönnum til yndisauka. Nú er tiltölulega smár hópur, frá öðrum heimshluta, mættur til leiks og allt er í hers höndum!
Ég fæ ekki staðist að setja allt þetta tal um menningarmun og árekstra í samhengi við nýjustu vendingar í tollastríði Bandaríkjanna og Kína. Stíllinn hjá Trump minnir mig um margt á kynni mín af æsta karlinum á flugvellinum í Casablanca hér um árið; Trump er frekur, kræfur, algjörlega óheftur og til alls vís. Venjulegir stjórnmálamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð enda hefur allt þeirra pólitíska líf snúist um að styggja ekki nokkurn mann, stíga ekki eitt einasta feilspor, og hvorki sýna of mikið frumkvæði né bera of mikla ábyrgð.
Örfáir þjóðarleiðtogar virðast kunna lagið á Trump: Modi, Milei, Bibi og MBS virðast ná inn á bylgjulengd Trumps og Bandaríkjaforseti á líka erfitt með að standast það þegar Macron skrúfar frá franska sjarmanum.
Rétt eins og ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið í Casablanca hefur framganga Trumps slegið mildu og prúðu stjórnmálamennina á Vesturlöndum út af laginu. Á sama tíma sáu pólitískir harðnaglar í öðrum heimshlutum að hér væri kominn Bandaríkjaforseti með enga þolinmæði fyrir hefðbundnu pólitísku miðjumoði, aðgerðaleysi og úrræðaleysi.
Á mánudag bárust þær fréttir frá Genf að hátt settir fulltrúar bandarískra og kínverskra stjórnvalda hefðu fundað þar alla helgina, og sammælst um það í rólegheitum að gera hlé á tollastríði landanna. Bandaríkin munu lækka sína ofurtolla úr 145% í 30%, og Kína mun lækka sín megin úr 125% í 10%. Hjólin eru farin að snúast, viðræður munu halda áfram, hlutirnir munu þróast í rétta átt, og vandinn reyndist ekkert svo flókinn eftir allt saman.
Menn þurftu bara að læra að skilja hver annan, og muna samt að standa nægilega fast á sínu.
Á það ekki alls staðar við?
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.