Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir að ávinningur úr útboði Íslandsbanka verði fyrst og fremst nýttur til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs en ríkið fær um 90 milljarða króna í sinn hlut ef allir þeir sem skráðir eru fyrir hlut í bankanum eru borgunarmenn fyrir hlutunum. Eftirspurnin var um 100 milljörðum umfram hlutabréf upp á 90 milljarða sem voru í boði.
Hann telur ekkert athugavert við orð sín um styrk bankakerfisins í upphafi útboðsins og segir að farið hafi verið að ráðum ráðgjafa þegar ráðuneytið sendi tilkynningar um að eftirspurn eftir hlutum í bankanum væri margföld því magni sem var í boði í útboðinu.
„Það er ekki hægt að vera annað en ánægður með þetta. Fyrirkomulagið hefur verið lengi í undirbúningi, bæði hjá fyrri ríkisstjórn og hjá okkur á Alþingi. Þetta tókst mun betur en maður þorði að vona,“ segir Daði Már.
Líkt og fram hefur komið var upphaflega áætlað að selja um 20% hlut í bankanum en tekin var ákvörðun um að selja alla hluti í eigu ríkisins vegna gríðarlegrar umframeftirspurnar.
Daði Már segir að sá umframpeningur, eða á bilinu 40-50 milljarðar króna, verði nýttur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
„Það er mikið forgangsmál að ná niður skuldastöðunni. Framtíðin er óviss og það hefur alltaf reynst Íslandi best að skuldastaðan sé hófleg þannig að getan sé til staðar til að takast á við óvissa framtíð,“ segir Daði Már.
Ef að líkum lætur fara nær allir hlutir í útboðinu til almennings. Spurður hvort það séu vonbrigði að engir fag- eða kjölfestufjárfestar hafi komist að borðinu, segir Daði að það sé eitthvað sem sé ekki í höndum ríkisins að hafa skoðun á þar sem það er að losa sig við hluti sína.
„Samanlögð eftirspurn var um 100 milljarðar umfram heildarvirðið og það sýnir áhugann á íslenskum eignum. En það sem er jákvætt í þessu er það að þessi mikla þátttaka almennings er til marks um bjartsýni og það er mjög gott,“ segir Daði.
Settar hafa verið fram athugasemdir við það að þú hafir í upphafi útboðs tjáð þig um það að íslensku bankarnir væru meðal öruggustu fjárfestinga sem völ væri á. Að þú værið þar með að hafa áhrif á útboðið þar sem stífar reglur gilda um slíkt. Sérðu eftir því að hafa tjáð þig með þessum hætti?
„Í fyrsta lagi var ég ekki að tjá mig um Íslandsbanka sérstaklega heldur íslenska bankakerfið. Þetta er það sem alþjóðastofnanir sem meta íslenska hagkerfið hafa bent á, að kerfið sé mjög vel fjármagnað og óvanalega stöðugt. Það hefur ekki verið leyndarmál heldur staðreyndir.“
En þú tjáðir þig með þessum hætti á þessum tímapunkti, í upphafi útboðs.
„Ef maður er að benda á staðreyndir en ekki mat sem á almennt við um íslenska bankakerfið þá sé ég ekki hvert menn eru að fara í slíkri gagnrýni,“ segir Daði Már.
En það voru líka gefnar út tilkynningar frá fjármálaráðuneytinu þar sem talað var um margfalda eftirspurn eftir áskriftum á meðan útboðið var í gangi.
„Já það er bara hluti af tilkynningarskyldu upp á gagnsæi að gera þetta. Við fylgdum alfarið þeim ráðleggingum sem við fengum,“ segir Daði.
En þú skilur sjónarmiðið. Eitthvað yrði sagt ef forstjóri í stóru fyrirtæki myndi tala með þessum hætti í miðju útboði. Að þar væri verið að reyna að hafa áhrif á markaðinn?
„Það var ekkert slíkt í gangi. Við vorum einfaldlega að sinna þeim upplýsingaskilyrðum sem okkur var ráðlagt að sinna,“ segir Daði.
Hver ráðlagði ykkur það?
„Okkar ráðgjafar,“ segir Daði.
Sem sagt aðkeypt þjónusta?
„Já.“