Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður útboðs á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Útboðið fór fram dagana 13.-15. maí og lauk með því að ríkissjóður seldi allan eignarhlut sinn í bankanum, 45,2%, á föstu verði, 106,56 krónur á hlut. Heildarandvirði útboðsins nemur 90,6 milljörðum króna.
Eftirspurn var eins og ráðuneytið segir sjálft „án fordæma“ og bárust tilboð fyrir yfir 190 milljarða króna eða um 100 milljörðum meira en var í boði. Sérstaka athygli vakti þátttaka einstaklinga en í tilboðsbók A bárust áskriftir frá 31.274 einstaklingum, sem buðust til að kaupa fyrir samtals 88,2 milljarða króna. Meðaláskrift einstaklinga var því um 2,8 milljónir króna.
Engin skerðing er á áskriftum almennra fjárfesta þrátt fyrir fordæmalausa þátttöku. Það þýðir að nú þarf að standa skil á greiðslum vegna hlutabréfanna en greiða þarf ríkissjóði eigi síðar en 20. maí.
Áhugavert verður að fylgjast með söluþrýstingi á bréfum bankans eftir tilfærslu þeirra til almennings. Líklegt þykir að margir einstaklingar hafi ætlað sér að selja hlutina fljótlega og nýta þannig afslátt í boði ríkisins. Enn aðrir töldu fullvíst að til skerðingar myndi koma og skráðu sig því fyrir hærri hlut en ella.
Markaðurinn hefur verið krefjandi það sem af er ári og Úrvalsvísitalan lækkað um rúm 8%, því er ekki á vísan að róa þegar kemur að hlutabréfum. Það þrátt fyrir að Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi í miðju ferli kallað fjárfestinguna „örugga“. Reyndar vill hann meina að hann hafi verið að tala um allt bankakerfið. Það breytir því ekki að forsvarsmaður útboðs á ekki að tjá sig á þennan hátt.
Greiningarfyrirtækið Akkur mat verðmæti bankans á um 145 krónur á hlut eða 36% yfir útboðsgenginu. Útboðsgengi var jafnframt nokkuð undir skráðu gengi á markaði en fjármála- og efnahagsráðherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum eftir útboðið að allt tal um afslátt í þessu tilviki skipti í raun engu máli því hér sé þjóðin að kaupa af þjóðinni, í þeim skilningi að ríkið sé að selja til einstaklinga samfélagsins.
Ummæli ráðherra í miðju ferli um örugga fjárfestingu, tilkynningar ráðuneytisins fyrir lokun útboðs um fordæmalausa eftirspurn og nú athugasemd frá ráðherra að afsláttur skipti engu máli þar sem þjóðin sé að kaupa af þjóðinni eru allt ummæli sem vekja undrun. Átta stjórnmálamenn sig ekki á hlutverki sínu, af hverju voru þau að hvetja almenning svo stíft til að taka þátt? Stofnanir ríkisins keppast síðan við að blessa öll þessi ummæli, telja þau eðlileg og vísa á ráðgjafa enda ríkir gleði á meðan bréfin hækka. Hvað gerist ef þau lækka?
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.