Þóknanatekjur hjá Arion banka jukust um 35% milli ára og voru þær hæstu síðan 2022. Hækkun milli ára er einkum í þóknunum af lántöku og svo af miðlun og fyrirtækjaráðgjöf.
„Það er ekki endilega um einskiptistekjur að ræða en hægt að segja að stór verkefni skili um 700 milljónum króna í tekjur á fjórðungnum og þessi stóru verkefni voru óvenjumörg á þessum fjórðungi, en eru samt regluleg,“ segir í svörum Arion þegar eftir þeim var leitað.
Arðsemi á fyrsta ársfjórðungi var nærri 13% þrátt fyrir mjög erfiðar ytri aðstæður á verðbréfamörkuðum, sérstaklega á hlutabréfamörkuðum.
„Við eðlilegri aðstæður á þeim mörkuðum hefði arðsemin orðið umtalsvert hærri,“ segir jafnframt í svörum Arion.
Varðandi horfur í rekstri bankans fyrir árið svarar bankinn því að horfurnar séu ágætar.
„Eftirspurn eftir lánum og annarri þjónustu bankans er í takt við væntingar og því horfum við fremur jákvætt á reksturinn, þó að óvissa sé talsverð í ytra umhverfi.“
Í svörum bankans kemur einnig fram að hátt raunvaxtastig sé á meðal þeirra áskorana sem fjármálafyrirtæki fást við.
„Fyrir vikið er erfiðara fyrir fyrirtæki og einstaklinga að ráðast í fjárfestingar. Háir raunvextir markast af því að á sama tíma og stýrivextir eru mjög háir hefur verðbólga verið að lækka nokkuð hratt og það er blanda sem gerir fjárfestingar og framþróun erfiðari. Einnig mun flókið regluverk áfram vera áskorun fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja."
Samantekt um horfur í rekstri bankanna má lesa í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.