Bandarísk stjórnvöld undirbúa nú formlega að slaka á eiginfjárkröfum stærstu banka landsins, samkvæmt fréttum Financial Times og Reuters. Breytingarnar, sem eru sagðar þær umfangsmestu í áratugi, fela í sér lægri kröfur um eigið fé og minni áherslu á reglur Basel III/IV, með það að markmiði að auka útlán, örva hagvöxt og styrkja þátttöku banka á skuldabréfamörkuðum.
Á sama tíma halda íslensk stjórnvöld fast í einar ströngustu eiginfjárkröfur í Evrópu og Seðlabankinn hefur tekið fálega í tillögur um slökun, þrátt fyrir sívaxandi gagnrýni frá fjármálageiranum og ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að á næstu misserum kunni að skapast svigrúm til að lækka eiginfjárkröfur.
Þann 4. desember 2024 ákvað fjármálastöðugleikanefnd að hækka eiginfjárauka á kerfislega mikilvæga banka úr 2% í 3%, þrátt fyrir að kerfisáhættuauki hefði lækkað samhliða. Heildareiginfjárkrafa stóru bankanna stendur því í stað, eða hækkar að hluta ef litið er til erlendra skuldbindinga. „Það kemur ekki til greina af hálfu Seðlabankans að fara að auka samkeppnishæfni íslenska fjármálakerfisins með því að taka niður eigið féð eða minnka þær eiginfjárkröfur sem hér eru,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi með fjölmiðlum í desember.
Í dag er eiginfjárhlutfall íslensku bankanna yfir 20% og vogunarhlutfallið, eigið fé sem hlutfall af heildareignum, um 13%. Hærri eiginfjárbinding dregur úr áhættu en takmarkar útlánagetu. Til samanburðar var CET1-eiginfjárhlutfall um 16% í Evrópu en vogunarhlutfallið 5,9% í lok síðasta árs.
Þetta þýðir að íslenskir bankar þurfa að binda mun meira eigið fé en erlendir keppinautar – bæði miðað við áhættuvegnar eignir og heildareignir, sem hefur bein áhrif á útlánagetu og vaxtakjör. Ísland hefur innleitt regluverkið af meiri hörku en flest önnur lönd. Ráðgert er að munur á eiginfjárkröfum milli Íslands og annarra Evrópuríkja lækki lítillega með innleiðingu svokallaðra CRR III-bankapakka hér á landi sem taka eiga gildi síðar á árinu þótt Ísland muni áfram skera sig úr í þessum samanburði.
„Óumdeilt er að Ísland þarf á sterkum og öflugum fjármálafyrirtækjum að halda. Engu að síður kemur fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá 2018 að hárri eiginfjárbindingu fylgi kostnaður þar sem það eigið fé er dýrari fjármögnun en lánsfé,“ segir Ingvar Haraldsson, greininga- og samskiptastjóri SFF, og tekur fram að ákvarðanir um kjör útlána séu ávallt í höndum hvers lánveitanda fyrir sig. Samkvæmt nýlegri skýrslu Intellecon fyrir SFF nemur svokallað Íslandsálag, sem rekja má að miklu leyti til strangari reglna hér á landi en annars staðar í Evrópu, allt að 1,15% ofan á útlánsvexti, þar sem eiginfjárkröfurnar vega þyngst.
Ingvar segir jafnframt: „Hagfræðin segir okkur að kostnaður af þessum kröfum skiptist í einhverjum hlutföllum milli viðskiptavina og eigenda bankanna sem í báðum tilfellum eru að verulegu leyti íslenskur almenningur enda á almenningur bæði beint og í gegnum ríkið og lífeyrissjóði stærstan hluta íslensku bankanna.“
Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri segir strangar reglur nauðsynlegar fyrir lítið og sveiflukennt hagkerfi en gagnrýnendur telja að Seðlabankinn þurfi að endurmeta jafnvægið, því að of mikið öryggi getur reynst dýrt fyrir heimili, fyrirtæki og samkeppnishæfni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.