Íslenska bankakerfið og rekstur sparisjóðsins Indó var til umræðu í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna. Tryggvi Björn Davíðsson framkvæmdastjóri Indó var þar gestur.
Tryggvi lýsir því að markmið Indó sé að koma inn á markaðinn með mun lægri kostnað.
„Þá erum við að deila ábatanum með viðskiptavinum í staðinn fyrir að taka hann allan til okkar, sem hefur aldrei verið markmiðið,“ segir Tryggvi.
Spurður hvernig Indó tekst að veita þjónustu með minni kostnaði en aðrir vísar Tryggvi í einfaldleikann.
„Við erum náttúrlega einfaldari, við erum ekki með fjölbreyttan hóp viðskiptavina og við einbeitum okkur að heimilum. Við erum ekki með gríðarlega stórt eða flókið vöruframboð. Við erum með einfalt vöruframboð sem nýtist níutíu og fimm prósentum heimila. Það er í rauninni einfaldleikinn sem gerir það að verkum að við getum boðið mjög hagstæð kjör,“ segir Tryggvi.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast þáttinn í heild sinni hér: