Brynja Þrastardóttir hefur verið ráðin yfirmaður markaðseftirlits Nasdaq Iceland. Hún tekur við starfinu af Baldvini Inga Sigurðssyni, sem hefur látið af störfum og horfið til nýrra verkefna.
Fram kemur í tilkynningu að Brynja hafi starfað hjá Nasdaq Iceland frá árinu 2020. Hún hóf störf sem sérfræðingur í markaðseftirliti en gegndi síðar starfi viðskiptastjóra á skráningarsviði fyrirtækisins.
Brynja er um þessar mundir að ljúka tveimur meistaragráðum við Háskóla Íslands – annars vegar í fjármálahagfræði og hins vegar í alþjóðasamskiptum. Hún lauk B.Sc.-prófi í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá sama skóla árið 2018.
Markaðseftirlit Nasdaq Iceland hefur það hlutverk að fylgjast með upplýsingagjöf útgefenda skráðra verðbréfa og viðskiptum á markaði, auk þess að veita tengda þjónustu.