Hagnaður fyrir tekjuskatt hjá Síldarvinnslunni var 10,4 milljónir bandaríkjadala samanborið við 14,0 milljónir bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi 2024.
Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 82,6 milljónum bandaríkjadala samanborið við 81,4 milljónir bandaríkjadala á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur jukust um 1,2 milljónir bandaríkjadala á milli tímabila eða um 1,6%.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á tímabilinu var 22,2 milljónum bandaríkjadala eða 26,8% af rekstrartekjum, en var 19,2 milljónir bandaríkjadala og 23,6% af rekstrartekjum á sama tímabili 2024. Aukining á milli tímabila nemur því 3,04 milljónum bandaríkjadala.
Tekjuskattur var 3,1 milljónir bandaríkjadala og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2025 nam því 7,3 milljónum bandaríkjadala samanborið við 11,3 milljónum bandaríkjadala hagnað fyrsta ársfjórðung 2024.
Heildareignir námu 1.046,5 milljónum bandaríkjadala í lok mars 2025. Í lok árs 2024 námu heildareignir 1.059,6 milljónum bandaríkjadala.
Eigið fé fyrirtækisins var 648,6 milljónir bandaríkjadala. Eiginfjárhlutfall var 62,0% í lok tímabilsins en það var 60,7% í lok árs 2024.
Haft er eftir Gunnþóri Ingvasyni forstjóra Síldarvinnslunnar að á fyrsta ársfjórðungi 2025 hafi Síldarvinnslan staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að loðnuvertíðin varð sú minnsta í sögunni.
„Það eru veruleg vonbrigði í ljósi þeirra væntinga sem uppi höfðu verið, sérstaklega í kjölfar loðnulauss árs 2024. Veiðar á kolmunna í færeysku lögsögunni í janúar og febrúar gengu hægar en á sama tíma árið á undan. Framundan er makrílveiði sem við stefnum á að hefja í lok júní og mun síldarvertíð fylgja í kjölfarið. Makrílstofninn hefur dregist saman síðustu fimm ár og veiðimynstrið tekið breytingum. Enn er þó bjart yfir mörkuðum fyrir makríl og síld. Á sumrin hægist á bolfiskhlutanum hjá okkur og er tíminn nýttur í sumarfrí og slipptöku hjá skipum.," er haft eftir Gunnþóri.
Þá kemur fram að hlutdeildarfélag Síldarvinnslunnar, Arctic Fish, slátraði alls 3.140 tonnum af laxi á fjórðungnum, sem er 24% aukning frá sama tímabili fyrra árs. Þrátt fyrir aukið framleiðslumagn reyndust markaðsaðstæður krefjandi, sem hafði neikvæð áhrif á tekjur og afkomu. Félagið skilaði tapi upp á 2,1 milljarð króna á fjórðungnum.
„Það er umhugsunarvert hve mikill skattur er lagður á fiskeldið óháð afkomu, enda er hann tengdur við tekjur en óháður fjárbindingu og öðru. Töluverð umræða hefur átt sér stað í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti með skömmum fyrirvara fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda rétt fyrir páska. Umræðan hefur því miður að mestu snúist um form og minna um innihald, og stjórnvöld hafa forðast að ræða raunverulegu áhrif sem frumvarpið mun hafa á sjávarútveginn. Á dögunum birti ég minnisblað þar sem gerð er grein fyrir áhrifum frumvarpsins á Síldarvinnsluna. Niðurstaðan er skýr: Frumvarpið vinnur gegn samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs," er haft eftir Gunnþóri.
Enn fremur segir hann að fjölmargar áskoranir blasi nú við stjórnendum félagsins. Alþjóðleg óvissa hafi aukist og getur haft áhrif á markaði með litlum fyrirvara.
„Á sama tíma boða stjórnvöld aukna skattheimtu í formi veiðigjalda sem jafnframt ógnar samþættingu veiða og vinnslu sem er meginstoð þeirrar virðisaukningar og arðsemi sem greinin hefur byggst upp á. Yfirlýsingar ráðamanna um að tvöföldun veiðigjalda hafi engin áhrif opinbera í versta falli hversu ótengdir þeir eru gangverki atvinnulífsins. Sjávarútvegur hefur fjárfest mikið á undanförnum árum og hafa fjárfestingarnar að miklu leyti verið fjármagnaðar með eigin fé, þ.e. félögin hafa nýtt stóran hluta af hagnaði sínum til að endurnýja skipastól og vinnslutækni svo samkeppnishæfni haldist á mörkuðum. Ef ríkið tekur 1.600 milljónir króna í viðbót af hagnaði félagsins þá einfaldlega dregst getan til fjárfestinga og framþróunar saman til samræmis við það. Síldarvinnslan hf. hefur sett frekari fjárfestingar á ís og munu stjórnendur rýna allan rekstur með það í huga að finna út hvar megi spara og gera betur. Slíkar aðstæður kalla á aukið kostnaðaraðhald, hagræðingu og krefjandi ákvarðanatöku. Auk þess að bitna á fyrirtækinu sjálfu, er ljóst að í Fjarðabyggð og nærumhverfi félagsins, mun þetta bitna á verslun, þjónustu og verktakafyrirtækjum. Þannig má nefna að á síðustu þremur árum höfum við verslað við fyrirtæki í Fjarðabyggð fyrir 9,4 milljarða. Ljóst er að draga þarf saman seglin þegar ríkið mun taka 1.600 milljónir króna til viðbótar af væntum hagnaði félagsins árlega," er haft eftir Gunnþóri.