Rekstrarhagnaðarhlutfall Icelandair nam -21,7% á fyrsta fjórðungi þessa árs og hlutfall Play nam -46,9%. Rekstrarhagnaðarhlutfall (e. operating profit margin) er hlutfall sem sýnir hversu mikill hagnaður er eftir að rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá tekjum fyrirtækis. Það mælir hversu skilvirkt fyrirtækið er í rekstri sínum.
Helgi Frímannsson, fjárfestingaráðgjafi hjá New Iceland Advisors, bendir á í samtali við ViðskiptaMoggann að rekstur íslensku flugfélaganna hafi lengi verið háður árstíðasveiflum. Viðskiptalíkan þeirra byggist á því að sumarmánuðirnir skapi nægan rekstrarhagnað til að vega upp á móti tapi yfir veturinn. Á veturna dregur úr eftirspurn á norðurslóðum og fargjöld eru jafnframt lægri.
Til að bregðast við þessari árstíðabundnu sveiflu hafa bæði Icelandair og Play aukið framboð til suðlægari áfangastaða yfir vetrartímann.
„Slíkar breytingar geta þó dregið úr arðsemi, sérstaklega ef samkeppni á þessum mörkuðum þrýstir niður fargjöldum. Þetta á sérstaklega við um Play, sem leggur nú meiri áherslu á ferðir milli Íslands og Suður-Evrópu,“ segir Helgi.
Hann útskýrir að arðsemin af þessum leggjum hafi verið afar góð en með auknu framboði sem honum sýnist vera að myndast munu verðin líklega lækka og arðsemin minnka.
Helgi bætir við að einn stærsti óvissuþátturinn í rekstri félaganna snúi að kjarasamningum við flugstéttir, sem nú er unnið að því að ljúka.
„Íslensk flugfélög hafa oft átt í erfiðleikum með að halda í við launakjör samkeppnisaðila erlendis og verður athyglisvert að sjá hvaða áhrif hugsanlegar launahækkanir munu hafa á kostnað félaganna,“ segir Helgi.
Spurður út í horfur í rekstri flugfélaganna segir Helgi að rekstur Icelandair á fyrsta ársfjórðungi 2025 bendi til nokkuð jákvæðrar þróunar.
Félagið áætli EBIT-rekstrarhagnað upp á 40-60 milljónir dala fyrir árið, sem samsvarar 2,4%-3,5% hlutfalli af tekjum. Umbreytingaverkefninu ONE er ætlað að lækka kostnað um 70 milljónir dollara fyrir árslok.
Hann bendir á að Play hafi ekki birt afkomuspá fyrir árið en tilkynnt að unnið sé að 15%-20% kostnaðarlækkun, sem á að skila sér í bættri afkomu síðustu níu mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra.
„Nær ómögulegt er að bera saman starfsemi Play milli ára, þar sem félagið sjálft er með færri vélar í rekstri og mikið breytta flugáætlun. Líklegt er að Play sæki sér viðbótarfjármagn á næstu 12-18 mánuðum, en hagstæðir leigusamningar á eftirsóttum Airbus-vélum gætu verið aðlaðandi fyrir fjárfesta,“ segir Helgi.
Hann segir að rekstrarumhverfi flugfélaga sé almennt hagfellt um þessar mundir. Eldsneytisverð hefur lækkað töluvert undanfarið. Á móti komi að framleiðslugeta flugvélaframleiðenda, á borð við Boeing og Airbus, er undir þrýstingi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.