Valgerður Hrund Skúladóttir, einn af stofnendum Sensa og framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun árið 2002, lætur af störfum 31. ágúst næstkomandi eftir 23 ára feril. Hún mun þó áfram tengjast félaginu, en tekur sæti í stjórn þess.
Við stöðu framkvæmdastjóra tekur Guðmundur Stefán Björnsson 1. september. Hann hefur starfað hjá Sensa síðastliðin 10 ár sem öryggisstjóri og leiðtogi upplýsingatæknimála, og var áður í 18 ár hjá Símanum, þar af 5 ár í framkvæmdastjórn.
„Nú er rétti tíminn til að afhenda keflið til Guðmundar Stefáns, sem ég treysti til að leiða fyrirtækið inn í næsta kafla með nýjum hugmyndum og krafti,“ er haft eftir Valgerði í tilkynningu. Félagið hefur vaxið og þróast verulega undir hennar stjórn og er í dag með 160 starfsmenn í 12 löndum. Það sérhæfir sig í hýsingar- og rekstrarþjónustu, innviðalausnum og sérfræðiþjónustu fyrir fyrirtæki.
Í tilkynningu er haft eftir Guðmundi Stefáni:
„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að takast á við nýtt hlutverk. Sensa er einstakt fyrirtæki og hefur á að skipa öflugum hópi starfsfólks. Ég tek við góðu búi og eru tækifæri fjölmörg fram undan fyrir frekari vöxt og framþróun."
Sensa var keypt af Símanum árið 2007 en hefur frá árinu 2020 verið í eigu alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækisins Crayon.