Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Þessa dagana er víðföruli viðskiptablaðamaðurinn að slæpast í Keníu og kann afskaplega vel við sig í þessu mergjaða landi þar sem allt er fullt af lífi og sögum.
Merkilegt nokk þá fjalla kenískar þjóðsögur iðulega um mikilvægi þess að trúa ekki hverju sem er.
Þar er hýenan oft í aðalhlutverki enda stígur hún ekki í vitið. Þannig bar það til að hrekkjóttur hérinn heimsótti félaga sinn hýenuna og leyfði honum að smakka hunang úr poka sínum. Hýenan hafði aldrei áður bragðað annað eins lostæti, og vildi endilega fá meira, en hérinn sagði að fyrst þyrfti hann að láta sauma fyrir afturendann á sér til að geyma sætuna í maganum.
Hýenan samþykkti það um leið, lét hérann um saumaskapinn og át svo fylli sína af hunangi. Vitaskuld leið ekki á löngu þar til hýenan hneig niður, kvalin af hægðateppu og átti ekki langt eftir ólifað þegar örninn átti leið hjá, og fékkst hann til að rekja upp sauminn. Vildi þá ekki betur til en svo að allt sem saumurinn hafði haldið inni frussaðist yfir örninn, sem var ekki par hrifinn og sór þess eið að ná sér niðri á hýenunni fyrir þetta.
Nokkru síðar vitjaði örninn hýenunnar með fyrirtaks kjöt til að smakka. Hýenan vildi endilega fá meira af þessu góða kjöti, en örninn sagði að til að veiða meira myndi hann þurfa hjálp hýenunnar og allra frænda hans, og að þeir þyrftu að fljúga um langan veg.
Eftir að hýenan hafði safnað frændum sínum saman raðaði örninn þeim upp frá þeim stærsta til þess smæsta, og hélt hver hýenan í skottið á þeirri næstu. Fremst fór trúgjarna hýenan, og hélt um stélfjöður arnarins, sem hóf sig til flugs með halarófuna alla í eftirdragi.
Þegar hópurinn var kominn svo hátt á loft að ekki sást lengur til jarðar bað örninn fremstu hýenuna að klóra sér á vængnum, sem hún gerði en missti um leið takið á stélfjöðrinni svo að allur hópurinn féll til jarðar. Við fallið drápust allar hýenurnar nema ein, sem slasaðist samt svo mikið að hún haltraði upp frá því.
Er þar komin skýringin á undarlegu göngulagi hýenunnar.
Fyrr í mánuðinum gerðist svolítið stórfurðulegt í röðum hægrimanna, langt úti á hægri-jaðrinum. Hver á fætur öðrum kokgleyptu þeir langsótta kjaftasögu um að Emmanuel Macron, Friedrich Merz og Kier Starmer hefðu verið gripnir með poka af kókaíni um borð í lest á leið til Kænugarðs.
Sönnunargögnin voru móðukennd skjáskot af myndbandsupptöku af leiðtogunum þremur þar sem þeir heilsast og setjast niður við fundarborð um borð í lestinni, fyrir framan skara af blaðamönnum og ljósmyndurum. Macron grípur eitthvað hvítt, smátt og ferhyrnt af borðinu og stingur í vasann, en Merz fjarlægir prik af borðinu og heldur utan um það með báðum höndum á meðan félagarnir brosa framan í myndavélarnar.
Þeim sem trúðu sögunni þótti það augljóst að litla hvíta smáræðið væri poki fullur af kókaíni, og prikið sem Merz huldi væri áhald til að sniffa duftið. Fas mannanna þriggja átti að styðja við þessa rannsóknarniðurstöðu: þeir væru grunsamlega hressir og glaðir, en Macron svolítið skömmustulegur eins og hann hefði verið gripinn glóðvolgur.
Svo sterk var sannfæring þeirra sem trúðu þessu endemis bulli, að þeir spurðu sig ekki hversu líklegt eða trúlegt það væri að þrír valdamestu leiðtogar Evrópu myndu gerast svo vitlausir að hafa kókaín og tilheyrandi uppi á borðum í lest sem væri full af blaðamönnum – og það inni í herbergi þar sem von væri á skara af ljósmyndurum.
Svo mikill var viljinn til að trúa öllu illu upp á bandamenn Selenskís að fólk dreifði þessari fjarstæðukenndu samsæriskenningu vítt og breitt um netið án þess að reyna fyrst að meta hvort sagan gæti verið sönn. Allt sem þurfti var t.d. bara að finna ljósmynd af fundinum í góðri upplausn og er nóg til af þeim á vefnum – enda var krökkt af ljósmyndurum á fundinum um borð í lestinni. Á skýrari myndum blasir við að Macron fjarlægði notaðan snýtupappír af borðinu, og Merz lítinn kokkteilpinna sem lá (en ekki hvað!) við hliðina á glasi.
Einn áberandi íslenskur hægrimaður dreifði vitleysunni á Facebook, við rífandi undirtektir aðdáenda sinna. Þegar ég benti honum á að hann hefði hlaupið á sig, og bar sönnunargögn á borð, voru viðbrögðin ekki að viðurkenna mistökin og lofa að passa sig betur næst. Í stað þess fór blessaður maðurinn í vörn og tíndi til allt og ekkert: að í frjálsu samfélagi ætti fólk að vera óhrætt við að spyrja spurninga; hann hefði ekki verið að fullyrða heldur bara velta vöngum; fjölmiðlar væru ekki að veita lestar-kókaínmálinu neina athygli og hefðu brugðist í kórónuveirufaraldrinum; að ég vissi ekkert frekar en aðrir hvað hefði þarna verið á seyði; og að siðaprédikanir frá blaðamönnum væru afþakkaðar.
Þessi ágæti maður er hámenntaður, mjög virkur í stjórnmálum, og telur sig greinilega hafa mikið fram að færa til samfélagsumræðunnar. Hann hefur oft tekið góðar syrpur, og hafði t.d. á réttu að standa um margt sem hann gagnrýndi í kringum viðbrögðin við kórónuveirufaraldrinum og synti þar á móti straumnum.
En svona er hægt að vera efasemdamaður og séní einn daginn en trúgjarn rugludallur þann næsta. Það gildir örugglega einnig um mig, og eflaust um lesendur líka.
Held ég að það sem vantar einmitt núna sé að fólk reyni að verða betur meðvitað um að öll getum við verið jafn hrekklaus og vesalings hýenurnar sem haltra um slétturnar hérna í Keníu.
Vandinn er sá að netið hefur gefið öllum gjallarhorn, svo að ótrúlegasta bull og vitleysa getur dreifst um allan heim á augabragði. Það væri kannski ekki svo slæmt, ef það væri ekki langtum erfiðara verk að hrekja rugl og rangfærslur en að dreifa þeim. Ég hef áður fjallað hér um Brandolini-lögmálið, sem kennt er við Ítalann Alberto Brandolini, en hann hlustaði eitt sinn á viðtal við Silvio Berlusconi heitinn og varð gáttaður á hvernig ítalska forsetanum tókst að ryðja upp úr sér stöðugum flaumi af rangfærslum. Rann þá upp fyrir Brandolini að það sem Berlusconi gæti skrökvað og spunnið á nokkrum sekúndum gæti tekið marga daga að hrekja. Það kostar ekki neitt að bulla, en að komast að rótum sannleikans kallar á yfirlegu og rannsóknarvinnu, og svo þarf líka að hafa heilmikið fyrir því að láta sannleikann ná til eyrna almennings.
Bullið getur öðlast sjálfstætt líf og nú, þegar miðlaumhverfið er drifið áfram af smellum, dreifist bullið því hraðar sem það er meira krassandi. Það hefur líka ákveðið afþreyingargildi að trúa safaríku slúðri – sérstaklega þegar bullið fellur að þeirri heimsmynd sem fólk hefur þegar mótað sér. Sannleikurinn er yfirleitt frekar litlaus og leiðinlegur – og stundum er hann jafnvel óþægilegur.
Bandaríski samfélagsrýnirinn Bill Maher hitti naglann á höfuðið í nýlegu innslagi í sjónvarpsþætti sínum, þar sem hann gerði að umtalsefni hvernig hjarðhegðun hefur áhrif á það hverju við trúum og hvaða skoðanir við tileinkum okkur. Þegar að er gáð er frekar grunnt á sannfæringunni hjá fólki og sést á því að í bandarískum stjórnmálum virðist skipta mestu máli hver heldur einhverju fram, frekar en hvað er til í því sem hann segir.
Þannig sáu vinstrimenn ekki sólina fyrir Tesla og þeim þótti Musk frábær gæi þegar þeir héldu að hann væri með þeim í liði. En þegar hann gerðist bandamaður Trumps varð Tesla skyndilega hálfgert rusl og Musk rugludallur, óbermi og fasisti. Gott ef bandaríska vinstrið er ekki búið að missa áhugann á rafbílum yfirhöfuð.
Að sama skapi eru bandarískir hægrimenn, sem tortryggðu rafbílabyltinguna, allt í einu orðnir miklir áhugamenn um orkuskipti bílaflotans og spenntir fyrir Teslu.
Maher nefndi annað dæmi: Í kórónuveirufaraldrinum mæltust stærstu samtök bandarískra barnalækna til þess að börnunum yrði hleypt aftur inn í skólastofurnar frekar en að láta þau dúsa í einangrun heima hjá sér. Þegar Trump viðraði sömu skoðun, og sagðist vilja opna skólana með hraði, þá virtust barnalæknarnir taka U-beygju og lögðust gegn því að koma skólastarfi aftur í eðlilegt horf, að því er virðist þvert á öll vísindaleg rök.
Þegar Michelle Obama gerði það að sínu helsta baráttumáli, sem forsetafrú, að hjálpa Bandaríkjamönnum að hreyfa sig meira og borða hollari mat fundu repúblikanar því allt til foráttu. Núna, þegar RFK vill koma samlöndum sínum í betra form, heyrist allt annað og jákvæðara hljóð í repúblikönunum – en demókratar tortryggja allt sem nýr heilbrigðisráðherra Trumps segir og gerir.
Því miður luma ég ekki á neinni töfralausn á þessum vanda, nema kannski að fólk reyni að vanda valið á fjölmiðlum og álitsgjöfum. Öll ættum við að temja okkur að hlýða á sjónarmið sem stangast á við okkar eigin, gæta okkur á að einangrast ekki inni í búbblu, og smám saman gefa því fólki og fjölmiðlum minna vægi sem hafa ítrekað haft á röngu að standa.
Það fellur ágætlega að mínum persónulegu hagsmunum, sem blaðamaður, að sennilega hefur það aldrei verið brýnna en einmitt núna að vera reiðubúinn að borga fyrir vandaðan fréttaflutning og fréttarýni, því ástandið í netheimum versnar jafnt og þétt og ekki virðist gervigreindartæknin til annars líkleg en að auka á óreiðuna.
Vaxandi framboð er af bulli sem kostar ekki neitt, en sannleikurinn virðist ekki til nema í takmörkuðu magni og yfirleitt kostar hann eitthvað.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.