Í fyrsta sinn í sögu Tenerife, stærstu eyjarinnar í Kanaríeyjaklasanum, verður í haust hafist handa við boranir eftir jarðhita til orkuvinnslu. Verkefnið er samstarf spænskra og íslenskra aðila og gegnir íslenska fyrirtækið Reykjavík Geothermal lykilhlutverki sem eigandi og tæknilegur ráðgjafi.
Þetta markar tímamót í orkusögu eyjarinnar og er hluti af áætlun um aukna sjálfbærni í orkumálum.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að boranir fari fram á suðurhluta eyjarinnar í september, og verða holurnar allt að 3.000 metra djúpar. Markmiðið er að staðfesta jarðhitaaðstæður sem geta stutt við uppbyggingu stöðugrar og vistvænnar orkuvinnslu allt árið um kring.
Að verkefninu standa Reykjavík Geothermal, orkufyrirtækið DISA – stærsta einkarekna orkufyrirtæki Kanaríeyja – og opinberu stofnanirnar ITER og Involcan. Sameiginlegt verkefnafélag þeirra, Energía Geotérmica de Canarias (EGC), var stofnað formlega við undirritun í Santa Cruz í dag.
„Þetta verkefni er byggt á reynslu, þekkingu og trú okkar Íslendinga á jarðhita sem sjálfbæran orkugjafa, og gæti gjörbreytt aðstæðum til orkuframleiðslu á Tenerife. Það traust sem samstarfsaðilar okkar í verkefninu leggja til okkar er mikil viðurkenning á íslensku hug- og verkviti á sviði jarðhita og heiður fyrir okkur, segir Magnús Ásbjörnsson, forstjóri Reykjavik Geothermal, í tilkynningu.
Ef boranir staðfesta orkuríkar aðstæður er gert ráð fyrir að uppbygging jarðhitaorkuvera geti orðið lykilstoð í orkuskiptum Tenerife.