Í 20 ára ríkisskuldabréfaútboði bandaríska fjármálaráðuneytisins á miðvikudag var boðið út fyrir 16 milljarða dala. Útboðið vakti athygli vegna óvenju veikrar eftirspurnar, en hlutfall tilboða (e. bid-to-cover ratio) mældist 2,46. Ávöxtunarkrafa bréfanna var 5,047% við úthlutun, hærri en búist hafði verið við á markaði. Strax eftir útboðið hækkaði markaðskrafan í 5,127%, sem er hæsta staða 20 ára skuldabréfa síðan í nóvember 2023.
Þó að útboðið hafi vakið töluverða athygli benda sérfræðingar á að 20 ára skuldabréf séu tiltölulega óvinsæl miðað við önnur ríkisskuldabréf og því ekki endilega marktæk vísbending. Erlendir fjárfestar keyptu stóran hluta útboðsins, líklega vegna þess að 20 ára bréfin buðu hæstu ávöxtun á markaðnum um þessar mundir.
Sérfræðingar vara því við því að lesa of mikið í niðurstöður útboðsins en benda þó á að ýmis neikvæð merki séu að birtast. Fram undan eru einnig áskoranir, verðbólgumæling Seðlabankans fyrir apríl og fundargerð peningastefnunefndar er nokkuð sem fjárfestar bíða eftir.
Moody’s lækkaði nýverið lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna með vísan til langvarandi hallareksturs og vaxandi vaxtabyrði ríkissjóðs, úr Aaa í Aa1. Samkvæmt nýjustu tölum hefur ríkið þegar greitt 684 milljarða dala í vaxtagreiðslur á þessu fjárhagsári, sem samsvarar 16% af öllum opinberum útgjöldum. Moody’s bendir sömuleiðis á að vaxandi áhætta vegna stjórnmála hafi haft neikvæð áhrif á lánshæfismatið.
mj@mbl.is