Volodymyr Kuzyo, fjármálastjóri og aðstoðarbankastjóri Bank Lviv í Úkraínu, segir hátt tæknistig í landinu skapa tækifæri í rekstri fjármálafyrirtækja. Kuzyo þekkir efnahagslíf landsins vel en hann var aðstoðarefnahagsmálaráðherra landsins.
ViðskiptaMogginn var viðstaddur þegar nýjar höfuðstöðvar Bank Lviv voru opnaðar 8. maí síðastliðinn.
Rekstur bankans hefur verið á uppleið. Árið 2017 tók ný stjórn bankans við störfum og er árið 2016 því oft haft til samanburðar. Starfsmönnum bankans fjölgaði úr 272 árið 2016 í 488 í árslok 2024, eða um tæp 80%. Þá var skipulag á útibúum bankans endurskoðað og aðlagað nýrri stefnumótun.
Kuzyo sagði í samtali við ViðskiptaMoggann að stafræn tækni gegni mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans.
„Við erum nú með 23 útibú en þau eru staðsett í vesturhluta landsins. Við erum með áætlun um frekari fjölgun útibúa. Á sama tíma teljum við stafræna umbreytingu vera kjarnann í því sem við erum að gera. Við viljum vera nær viðskiptavinum okkar í gegnum farsíma og leysa öll vandamálin á viðskiptahliðinni sem viðskiptavinir okkar standa frammi fyrir. Það er hlutverk okkar og draumur, myndi ég segja. Auðvitað er Úkraína mjög þróuð í stafrænum lausnum og notkun appa í snjallsímum, svo að dæmi séu tekin. Við erum að þróa tækni okkar til að uppfylla ekki aðeins væntingar okkar heldur einnig og fyrst og fremst væntingar viðskiptavina okkar.“
Úkraína er með mjög þróaðan upplýsingatæknigeira. Gagnast það bankanum í þessari stafrænu umbreytingu?
„Tvímælalaust. Upplýsingatæknigeirinn í Úkraínu er talinn einn sá besti í heiminum. Raunar eru hér í nágrenninu höfuðstöðvar margra upplýsingatæknifyrirtækja.“
Hafið þið orðið fyrir netárásum frá Rússlandi á stafræna innviði ykkar?
„Já, en ekki oft. Það á sinn þátt í árásunum að Bank Lviv skuli bera þetta nafn. Við höfum orðið fyrir nokkrum árásum og svo varð raunar allt bankakerfið og skráningarkerfi bankanna fyrir netárás í upphafi þessa árs,“ segir Kuzyo.
Ítarlega var rætt við hann og þrjá aðra lykilstjórnendur Bank Lviv í síðasta ViðskiptaMogga.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.