Metnaðarlítil fjármálaáætlun

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við í desember síðastliðnum segir í fyrstu málsgrein: „Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.“ Taka má heilshugar undir þetta markmið sem vakti vonir um að ríkisstjórnin myndi hagræða svo um munar í rekstri ríkissjóðs. Eftir öll stóru orðin kemur hins vegar á óvart hversu lítið stendur til.

Aðhald minnkar og skuldasöfnun heldur áfram

Þvert á yfirlýsingar er aðhald opinberra fjármála minna á næstu árum en ráðgert var í síðustu fjármálaáætlun – með öðrum orðum minnkar stuðningur við peningastefnuna. Verst er að aðhaldið minnkar verulega á næsta ári og verður nánast ekkert, einmitt þegar ríður á að styðja við Seðlabankann í vaxtalækkunarferlinu. Við þetta bætist að lánsfjárþörf ríkissjóðs verður ennþá veruleg, skuldahlutfallið lækkar því lítið og verður áfram talsvert hærra en hið lögbundna 30% hámark skuldareglu við lok tímabilsins. Lítið má út af bregða til að jafnvel það hógværa markmið standist. Hagvöxtur þarf að vera sterkur og forsendur áætlunarinnar um fordæmalaust góða afkomu sveitarfélaga verða að standast.

Vafasamar útgjaldaforsendur

Í orði hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á hagræðingaraðgerðir, meðal annars með víðtæku samráði við almenning. Boðaðar aðgerðir hrökkva þó skammt í samhengi við afkomuhorfurnar og að auki er nokkuð óljóst hvernig þær verða útfærðar. Stærsta aðgerðin er hagkvæmari opinber innkaup sem á að skila 27 milljarða sparnaði. Aftur á móti vaxa vöru- og þjónustukaup ríkisins um 1,5% meira að raunvirði í nýrri áætlun en í núgildandi áætlun. Þetta stenst illa skoðun. Forsendur um önnur útgjöld vekja áleitnari spurningar. Gert er ráð fyrir sögulega litlum vexti launakostnaðar án þess að grípa eigi til sérstakra aðgerða, svo sem umbóta á vinnulöggjöf, til að styðja við það markmið. Þá eru fjárframlög, að mestu útgjöld vegna almannatrygginga, að hækka hóflega í sögulegu samhengi þrátt fyrir að áform séu um að beintengja bætur almannatrygginga við þróun launavísitölu. Ef fjárframlög hækka í takt við sögulega fremur en áætlaða þróun hleypur vanmat útgjalda á hundruðum milljarða króna.

Skaðlegar skattahækkanir

Á tekjuhliðinni eru að sama skapi fá fagnaðarefni. Fyrir liggur að ríkisstjórnin hyggst hækka skatta en ekki er ljóst í áætluninni hvaða skattabreytingar eru í farvatninu né heldur umfang þeirra þar sem ósamræmis gætir í texta og myndum áætlunarinnar. Tugum milljarða skeikar. Í áætluninni stendur auk þess: „[skattastefnan] verður að vera sveigjanleg gagnvart efnahagslegum veruleika sem blasir við hverju sinni, hvort heldur er til lengri eða skemmri tíma.“ Ætla mætti að sögulegir óvissutímar í alþjóðaviðskiptum gæfu stjórnvöldum tilefni til að staldra við og vera sveigjanleg gagnvart útflutningsgreinum. Svo virðist ekki vera. Þvert á móti stendur til að hækka skatta sérstaklega á útflutningsgreinar, grafa undan samkeppnishæfni þeirra og þar með þjóðarbúsins. Tekjur ríkissjóðs gætu þannig orðið minni, en ekki meiri, þegar upp er staðið.

Auglýst eftir markvissari fjármálaáætlun

Raunveruleg hagræðing í ríkisrekstri er nauðsyn en ekki val ef tryggja á sjálfbærni opinberra fjármála og réttlátar byrðar milli kynslóða. Í umsvifamiklum rekstri getur verið krefjandi að ráðast í breytingar en ef ríkisstjórnin ætlar að standa við stóru orðin þarf hún að fara að taka til hendinni með mun meira afgerandi hætti en fjármálaáætlun boðar – með sýnilegu og trúverðugu aðhaldi og raunverulegri hagræðingu. Það er ekki síður hlutverk stjórnvalda að varðveita samkeppnishæfni atvinnulífsins á alþjóðavettvangi, fremur en að bregða fyrir það fæti, eða eins og segir skýrt í stefnuyfirlýsingunni: „vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi“. Ísland þarf metnaðarfyllri fjármálaáætlun en þá sem fyrir liggur og það verður nú hlutverk Alþingis að sjá til þess.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK