Eftir langan og dimman vetur fara dagarnir að lengjast, bjartari tímar taka við og ný tækifæri blasa við. Fyrir nemendur fylgir því oft bæði eftirvænting og tilhlökkun þegar skóla lýkur þar sem sumarið og sumarstörfin eru handan við hornið og að mörgu að huga áður en haldið er af stað í nýtt hlutverk á vinnumarkaði. Eitt af því eru lífeyrismálin en þó þau kunni að virðast fjarlæg og óviðkomandi á fyrstu árum starfsævinnar þá skipta þau gríðarlegu máli allt frá fyrsta starfsdegi.
Fyrst um sinn geta lífeyrismálin oft virst flókin, sem leiðir gjarnan til þess að ítrekað fresta einstaklingar því að kynna sér þau. Hins vegar er gríðarlega mikilvægt að byrja snemma að huga að þeim, því það getur skipt sköpum þegar komið er á efri ár. Jafnvel þótt einstaklingurinn sem um ræðir sé sumarstarfsmaður, því líkt og máltakið segir „margt smátt gerir eitt stórt.“
Íslenska lífeyriskerfið skiptist upp í þrjár meginstoðir en þær eru almannatryggingar, skyldulífeyrissparnaður og viðbótarlífeyrissparnaður.
Í almannatryggingakerfinu er lífeyrir greiddur af ríkissjóði og fjármagnaður með skattgreiðslum.
Skyldulífeyrissparnaðurinn er lögbundinn og nær til allra einstaklinga á aldrinum 16 til 67 ára sem starfa á vinnumarkaði. Grunnurinn að skyldusparnaðinum er samtryggingarkerfi en það þýðir að sjóðfélagar tryggja hver öðrum lífeyri til æviloka og sameinast um tryggingavernd komi til áfalla. Greiðslur í skyldulífeyrissparnaðinn nema 15,5% af launum, launþegi greiðir 4% af launum sínum og atvinnurekandi leggur á móti 11,5%. Þrátt fyrir að um skyldusparnað sé að ræða standa einstaklingar frammi fyrir ýmsum valmöguleikum. Öll getum við valið hvort hluti iðgjaldsins fari í samtryggingu eða tilgreinda séreign og mörg hver geta einnig valið til hvaða lífeyrissjóðs er greitt.
Viðbótarlífeyrissparnaðurinn er hins vegar valfrjáls þar sem launþegar geta ákveðið að leggja til 2-4% af launum sínum, gegn því að atvinnurekandi leggi fram 2% mótframlag. Þegar valið er hvert skal greiða viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn skiptir máli að velta fyrir sér þáttum eins og markmiði og áhættuþoli.
Til að hámarka lífeyrisréttindi við lok starfsævinnar og tryggja fjárhagslegt öryggi á efri árum,- er mikilvægt að huga að lífeyrissparnaðinum sem fyrst. Þar með talið greiðslum í viðbótarlífeyrissparnað sem geta skipt verulegu máli til lengri tíma litið, tökum einfalt dæmi.
Jón er tvítugur og að byrja í sumarstarfi með 500.000 kr. í mánaðarlaun. Hann vinnur í þrjá mánuði, sem gerir samtals 1,5 milljónir króna í tekjur yfir sumarið. Jón leggur til 4% af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað þ.e. 60.000 kr. yfir sumarið og fær samsvarandi 2% mótframlag frá vinnuveitanda 30.000 kr. til viðbótar. Samtals safnast því 90.000 kr. í viðbótarlífeyrissparnað þetta sumar.
Ef gert er ráð fyrir að ávöxtun sé í takt við meðalávöxtun séreignarsjóða síðustu 10 ára, það er 6,1%, mun heildarinneignin í viðbótarlífeyrissparnaði vegna þessa sumars vera um 1,6 m.kr. þegar taka ellilífeyris hefst.
Þetta hljómar kannski ekki veigamikið en ef gert er ráð fyrir að Jón leggi fyrir í viðbótarlífeyrissparnað öll þau 5 ár sem hann er í námi, er heildarupphæðin vegna þess tíma komin í um 7,3 m.kr. við starfslok. Það munar um minna! Þá ber einnig að nefna að viðbótarlífeyrissparnað má nýta skattfrjálst við kaup á fyrstu fasteign, sem getur skipt sköpum fyrir ungt fólk á leið inn á húsnæðismarkað.
Að greiða mánaðarlega í lífeyrissjóð er ein mikilvægasta fjárfesting sem við leggjum af stað í yfir ævina. Allir sem hefja störf á vinnumarkaði ættu því að veita því sérstaka athygli hvert framlagið fer og hvaða áhrif það getur haft til framtíðar. Markmið okkar allra ætti að vera að njóta efri áranna með fjárhagslegt öryggi í fyrirrúmi.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.