Kristine Hartmann, forstjóri hinnar nýstofnuðu laxarannsóknar- og nýsköpunarmiðstöðvar Salman Living Lab í Noregi, segir að gríðarleg tækifæri liggi í að auka framleiðslu heilsusamlegrar sjálfbærrar fæðu úr hafinu. Á sama tíma bendir Hartmann á að framleiðsla á laxi í Noregi hafi staðnað. Ástæðan sé ýmsar líffræðilegar áskoranir í geiranum.
Hartmann hélt erindi á Hringborði hafs og eldis, málþingi um stöðu og framtíð lagareldis, í Arion banka í vikunni.
Hartmann vísar til orða Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um sama málefni. „Þröskuldarnir eru þó margar og það þarf að umbylta því hvernig við framleiðum mat almennt séð. Matvælaframleiðsla er t.d. ábyrg fyrir þriðjungi alls kolefnisspors heimsins,“ segir Hartmann.
Um laxeldið segir Hartmann að flestir séu sammála um heilnæmi fisksins og möguleika eldisins til að fæða heiminn. En geirinn þurfi að tækla áhyggjur fólks af velferð laxins.
„Norðmenn framleiða helming alls lax í heiminum en framleiðslan hefur staðnað vegna hindrana í reglugerðum og líffræðilegra áskorana. Það þýðir að bil myndast milli eftirspurnar og framboðs sem aftur þýðir að verð hækkar. Það ætti að vera góð staða, en er það í raun ekki.“
Hartmann segir að laxadauði í kvíum í Noregi sé 15,4% að meðaltali, sem sé alltof hátt hlutfall. Hún segir að mikil umræða sé um þessa prósentutölu í Noregi. Yfirvöld hafi lagt til 5% markmið í þessum efnum en iðnaðurinn vilji sveigjanlegra markmið sem miði að því að lágmarka laxadauða sem allra mest. „Síðasta sumar fengum við meira af marglyttu en við höfum séð sl. 25 ár sem gæti skýrst af hækkandi hitastigi sjávar. Hin líffræðilegu vandamál sem við horfum á verða sífellt flóknari.“
Það er einmitt ástæðan fyrir því að næststærsta laxeldisfyrirtæki Noregs, Salmar, ákvað að setja Salmon Living Lab á stofn, að sögn Hartmann. „Við viðurkennum að vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru svo flókin að við sem iðnaður getum ekki leyst þau ein, jafnvel ekki með stuðningi þeirra rannsóknarstofnana sem fyrir eru.“
Hartmann segir að stórfé sé varið í rannsóknir á laxi í Noregi ár hvert. „Vandinn er sá að það hefur reynst erfitt að yfirfæra rannsóknarniðurstöður á raunaðstæður. Rannsóknarverkefni enda því miður mjög oft á því að leggja til frekari rannsóknir. Þessu viljum við breyta í Salmon Living Lab.“
Salmon Living Lab verður eina miðstöðin í heiminum sem einblínir eingöngu á lax.
Hartmann segir að áhersla verði lögð á mikið samtal. „Við viljum vera í virku samtali þvert á iðnaðinn en einnig við háskólasamfélagið, sjálfstæð félög og dýraverndarsamtök. Við þurfum að opna eyrun til að læra af sem flestum. Yfirleitt erum við í varnarstöðu en við verðum að hlusta á gagnrýnisraddir til að færa hlutina áfram í iðnaðinum. Til að koma á varanlegum breytingum verður að viðurkenna vandamálin og biðja um aðstoð.“
Miðstöðin mun rísa í norskri borg. „Þetta verður alþjóðleg miðstöð – „kísildalur laxins“,“ segir Hartmann að endingu.
Miðstöðin mun rísa í norskri borg. „Þetta verður alþjóðleg miðstöð. Því er mikilvægt að vera nálægt samgönguinnviðum og allri þjónustu fyrir fólk sem dvelur hjá okkur um lengri og skemmri tíma við rannsóknir. Þetta verður „kísildalur laxins“.“
Að auki verða sett upp minni prófunarsetur á öðrum stöðum í landinu.
Hartmann segir aðspurð að ungt fólk leiti í sífellt meira mæli í nám í eldisfræðum. Það vilji síður vinna í olíubransanum, stærsta útflutningsiðnaði Noregs.
„Við auglýstum nýlega eftir fólki í lykilstöður og fengum 160 umsóknir, sem segir allt um áhugann. Við fengum margar mjög góðar umsóknir.“
Þó miðstöðin sé enn ekki risin er nú þegar eitt verkefni farið af stað.
Hartmann segir að starfsemi Salmon Living Lab muni nýtast iðnaðinum alþjóðlega, þar á meðal íslenskum laxeldisfyrirtækjum.
Aðspurð segist hún vera opin fyrir fjárfestingu erlendis frá og kveðst t.d. myndu fagna áhuga þeirra sem ekki hafa tengst laxeldi áður. „Við vijljum læra af öðrum geirum.“
Hún nefnir krabbameinsrannsóknir á mönnum sem dæmi. „Noregur er leiðandi í krabbameinsrannsóknum enda höfum við skráð alla krabbameinssjúklinga í gagnagrunn síðan árið 1951. Við viljum gera það sama með laxinn, að skrá alla sjúkdóma og sníkjudýr. Lykilatriði í rannsóknum eru góð gögn.“
Laxeldi er enn að vaxa sem grein enda aðeins um 30 ára gömul að sögn Hartmann. „Samt getum við ekki lengur falið okkur á bakvið það að við séum ung og óþroskuð. Við verðum að taka ábyrgð og fjárfesta meira í þekkingu og skilningi á líffræðilegri hlið eldisins,“ segir Hartmann að endingu.