Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Viðskiptablaðamaður á flandri rambaði á sniðugt ferðatrix á dögunum.
Ég átti erindi til Nairóbí, til fundar við Simba, Tímon, og öll hin dýrin á sléttunum suður í Kenía, en þurfti að ferðast frá bækistöðinni í Túnis. Eftir stutta leit varð ljóst að ég gæti sloppið nokkuð vel ef ég keypti miða á viðskiptafarrými með Egyptair, með viðkomu í Kaíró.
Þjóðarflugfélag Egyptalands mun seint vinna til verðlauna fyrir íburð, lúxus og dekur, en miðinn kostaði samt ekki nema rétt rösklega 1.000 evrur, og var það peninganna virði fyrir slána eins og mig sem þarf helst að geta teygt úr sér og hallað sér langt aftur á bak á löngum flugferðum.
Best af öllu var að á leiðinni til baka var nærri sólarhringsbið á milli flugvéla, en þegar það gerist kemur Egyptair farþegum sínum fyrir á hóteli. Ég hafði reyndar lesið einhvers staðar að hótelin sem flugfélagið verslar við væru ekki upp á marga fiska, og gladdi það mig því stórlega að fyrst ég ferðaðist á nokkuð góðum miða var mér komið fyrir á afskaplega fínu Le Meridien-hóteli við Kaíróflugvöll, og það á fullu fæði.
Á bakaleiðinni þurfti ég að vera kominn eldsnemma út á flugvöll í Naíróbí en var þá lentur í Egyptalandi um kl. 11, búinn að fá mér hádegisverð á hótelinu upp úr 13 og mættur í gamla safnið í miðborg Kaíró um kl. 14. Verður það að fljóta með að í Kaíró virkar Uber eins og í sögu: leigubílstjórarnir eru ekki með nein leiðindi og fargjaldið er svo lágt að samviskan leyfði mér ekki að borga minna en 100% þjórfé.
Gamla safnið í Kaíró, The Egyptian Museum, er orðið meira en lítið sjúskað en samt heimsóknarinnar virði. Þar er Tútankhamún í aðalhlutverki, og þar hvíla jarðneskar leifar Ramseasar II. og Seti I. svo aðeins séu nefndir nokkrir gestir sem rita sig ekki út í bráð.
Því næst lá leiðin í nýja safnið, Grand Egyptian Museum, sem er af allt annarri sort og mergjuð menningarstofnun í alla staði. Er safnið þó enn hálfklárað, þrátt fyrir að hafa tekið við gestum síðan 2023. Þeir segjast ætla að opna safnið að fullu, með mikilli hátíð 3. júlí næstkomandi en þegar blaðamann bar að garði virtust framkvæmdir enn í fullum gangi.
Ég endaði daginn á að fara til egypsks rakara – en þeir eru frægir fyrir að kunna sitt fag. Kollurinn var snoðaður, skeggið snyrt og táslurnar líka, og svo kom reikningurinn: 950 kr.
Því næst hélt ég upp á hótel og þurfti að fara snemma í háttinn til að ná flugi næsta morgun, en bað fyrst um að láta skipta til baka megninu af 100 dollurum sem ég hafði selt hótelbankanum fyrr um daginn og ekki tekist að eyða nema að litlu leyti. Kom þá í ljós að í Egyptalandi – líkt og víðar í Norður-Afríku – er eitt að selja dollara og annað að kaupa þá. Var mér sagt að til að skipta egypsku pundunum í dali þyrfti ég að fara til gjaldmiðlasala á flugvellinum, á leið minni úr landinu.
Næsta morgun innritaði ég mig í flugið, fór í gegnum öryggisleit og vegabréfaeftirlit, og svipaðist svo eftir gjaldmiðlasala á fríhafnarsvæðinu. Þar komst ég að því að ég hefði þurft að skipta egypsku pundunum áður en ég innritaði mig, og enga gjaldmiðlabúllu að finna fríhafnarmegin. Ég hugsaði þá sem svo að ég gæti a.m.k. keypt mér nýtt ilmvatn fyrir peninginn, og eftir mikið grúsk fann ég afar skemmtilegan nýjan ilm frá Guerlain. En hvað haldið þið? Fríhöfnin neitaði að taka við egypsku seðlunum en mér var velkomið að borga í dölum.
Svo er fólk að kvarta yfir Leifsstöð!
Nú voru góð ráð dýr, en sölukonan sem hafði elt mig um búðina og aðstoðað mig við leitina að spennandi ilmi reyndist eiga nokkra dollara í veskinu sínu og fékk ég að kaupa þá af henni, og mismuninn greiddi ég með korti. Það litla sem eftir var af egypsku seðlunum fór í söfnunarkassa Rauða hálfmánans.
Ilmurinn sem varð fyrir valinu – eftir að hafa grannskoðað hverja einustu hillu – var Ambre Samar, og svei mér þá ef þessi ilmur smellpassar ekki við Kaíró: með seiðandi angan af kryddum og reykelsi.
Alla jafna myndi ég vara við því að nota svona vel kryddaða og dökka ilmi yfir heitustu mánuðina – og hvað þá hér suður við Miðjarðarhaf þar sem það þykir vel sloppið ef hitinn fer ekki yfir 30°C, en Ambre Samar svínvirkar í hitanum: hann hefur sterka nærveru en er ekki yfirþyrmandi.
Ilmurinn minnir sumpart á Spice Bomb frá Viktor & Rolf, sumpart á Tobacolor frá Dior og sumpart á Tonka Cola frá Mancera – en samt nær Ambre Samar að vera á allt öðrum stalli. Hann er fágaðri en Spice Bomb, ekki jafn væminn og Tobacolor og ekki jafn einfaldur og Tonka Cola. Þessi ilmur er þéttur án þess að vera þungur, og frískandi án þess að vera laufléttur.
Í fyrstu má greina marsípan, möndlur, kóla, sítrus og jafnvel vott af freyðandi kampavíni. Svo kemur reykelsið og kryddið fram og timbraðir tónar frá blessuðu rafinu. Tonkabaun og patchouli-jurt koma síðan í lokin. Og ég fæ hreinlega ekki nóg!
Þessi ilmur ætti að henta báðum kynjum, og óhætt að nota hann árið um kring, hvort heldur í svalanum í Reykjavík eða í svækjunni í Alexandríu. Eini veikleikinn er sjálf flaskan, sem virkar ekki mjög sterkbyggð og er – eins og aðrar pakkningar í Absolus Allegoria-línu Guerlain – skreytt með gylltu plast-stykki með sexstrendu mynstri, og sæmir ekki alveg ilmi sem kostar 190 evrur (125 ml), eða nærri 28.000 kr.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.