Gagnavers- og ofurtölvufyrirtækið atNorth hefur ráðið Bjarka Björnsson sem forstöðumann fjármögnunar og fjárstýringar og Axel Valdemar Gunnlaugsson í starf forstöðumanns upplýsingatækni.
Í tilkynningu félagsins kemur fram að Bjarki kemur til með að bera ábyrgð á fjölda verkefna, þar á meðal sjálfbærri fjármögnun á vexti fyrirtækisins. Meðal verkefna Axels verður svo að leiða stefnumótun og samþættingu kerfa og ferla hjá atNorth.
Ráðning Bjarka og Axels til atNorth er til komin af auknum umsvifum fyrirtækisins, en yfirstandandi er stækkun gagnavera atNorth á Akureyri og í Reykjanesbæ.
Haft er eftir Eyjólfi Magnúsi Kristinssyni, forstjóra atNorth í tilkynningu:
„Við bjóðum Bjarka og Axel hjartanlega velkomna og hlökkum til samstarfsins. Starfsfólkið er hjarta starfseminnar og drifkrafturinn að baki áframhaldandi vexti atNorth. Við fögnum liðsaukanum og höldum áfram að einbeita okkur að því verkefni að mæta þörfum fyrirtækja fyrir stafræna innviði á umhverfisvænan hátt.“