„Réttarríkinu var fórnað fyrir pólitíska hagsmuni.“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankamaður.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankamaður. Ljósmynd/Aðsend

„Réttarríkinu var fórnað fyrir pólitíska hagsmuni,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankamaður, í ítarlegu viðtali við Frosta Logason á efnisveitunni Brotkast. Þar ræðir hann um áralanga málsmeðferð sína í kjölfar bankahrunsins og beinir þungum ávirðingum að embætti sérstaks saksóknara.

Þorvaldur var með réttarstöðu sakbornings í tíu ár og fékk að lokum skilorðsbundinn dóm fyrir hlutdeild í umboðssvikum í svokölluðu Stím-máli, heilum áratug eftir húsleit og handtöku. Hann heldur fram sakleysi sínu og hefur nú leitað réttar síns fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Niðurstöðu í því máli er að vænta á næstu mánuðum. 

Í viðtalinu lýsir Þorvaldur hvernig hann telur embættið hafa beitt óvönduðum og ósanngjörnum rannsóknaraðferðum, þar á meðal markvissum leka til fjölmiðla, einhliða sönnunarfærslu og óútskýrðum húsleitum og einangrunarvist löngu eftir að meint brot áttu sér stað.

Hann nefnir sérstaklega að honum hafi verið tilkynnt um réttarstöðu sína í Kaupþingsmálinu svokallaða af fréttamanni Kastljóss, áður en hann fékk nokkra formlega tilkynningu frá yfirvöldum. „Ég hafði enga vitneskju, en fréttamaður vissi allt,“ segir hann.

Þorvaldur segir að fjölmiðlar hafi í sumum tilvikum verið mættir með ljósmyndara fyrir utan heimili manna áður en til handtöku kom og vísar meðal annars í leiðbeiningar Evu Joly, ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í hrunmálarannsóknum, sem hafi mælt með markvissum upplýsingaleka til að móta andrúmsloftið í samfélaginu.

Þorvaldur segir rannsókn á máli sínu hafa verið stöðvaða tvisvar vegna skorts á sönnunargögnum, en síðar endurvakna þegar „uppljóstrari“ tók U-beygju og samþykkti að vitna gegn fyrrverandi samstarfsmönnum gegn sakaruppgjöri. Hann fullyrðir að þetta hafi snúið rannsóknina í aðra átt án nýrra staðreynda. 

„Menn höfðu reitt málið svo hátt til höggs að þeir gátu ekki bakkað út – þeir urðu að finna eitthvað.“

Gögn horfið

Þá segir hann að margir hafi aðeins fengið réttarstöðu sakbornings tímabundið, án þess að nokkru sinni kæmi til ákæru eða yfirheyrslu. Sjálfur hafi hann t.a.m. verið sakborningur í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli í örfáa daga án þess að fá nokkrar skýringar á því síðar.

Þorvaldur fullyrðir að gögn sem hefðu getað sýnt fram á sakleysi hans hafi annaðhvort horfið úr gögnum málsins, verið „týnd“ eða meðvitað haldið frá málinu með dómsúrskurði. Í einu tilviki hafi sami dómari og veitti slíka undanþágu síðar dæmt málið sjálft, sem hann segir vera augljóst réttarfarslegt ósamræmi.

„Við bentum þeim á hvar gögnin væru – en þá var það bara: þau eru týnd.“

Haft djúp áhrif

Þorvaldur lýsir því einnig hvernig dagbækur hans, sem hefðu getað varpað ljósi á starfshætti hans, hafi ekki verið teknar af yfirvöldum í húsleit. Hann hafi síðar afhent þær sjálfur og segir að hann hafi ekkert haft að fela.

„Ég vil ekki að börnin mín þurfi að ganga í gegnum þetta,“ segir hann og bætir við að málið hafi haft djúp áhrif á líf hans, fjölskyldu og mannorð. „Við getum öll verið breysk og mannleg, en kerfin okkar verða að standa undir trausti.“

Að lokum gagnrýnir hann að embætti sérstaks saksóknara hafi notið of mikils sjálfstæðis án aðhalds frá ríkissaksóknara eða dómsmálaráðuneyti. Hann vísar til þess að Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, hafi hvatt til árása á þá sem voru tengdir bönkunum með orðunum: „Ná þessum andskotum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK