Helga Dagný Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýs sviðs innan Icepharma sem ber nafnið Icepharma Velferð. Samhliða tekur hún sæti í framkvæmdastjórn Icepharma og móðurfélagsins Ósa – lífæðar heilbrigðis hf.
Fram kemur í tilkynningu að nýja sviðið muni leiða áframhaldandi uppbyggingu velferðartækni hjá félaginu, með áherslu á snjallar lausnir sem styðja við fólk til að lifa sjálfstæðu lífi sem lengst. Helga hefur undanfarin ár stýrt þróun á velferðartæknilausnum innan Icepharma og hefur áður gegnt störfum við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og sem viðskiptastjóri lækningatækja hjá Icepharma.
„Frá því Helga Dagný hóf störf hjá Icepharma hefur hún leitt fjölbreytt verkefni á sviði viðskiptaþróunar og gegnt margvíslegum hlutverkum innan fyrirtækisins. Hún hefur brennandi áhuga á framþróun í heilbrigðiskerfinu og litið á heilbrigðis- og velferðartækni sem lykilþátt í að mæta þeim áskorunum sem kerfið stendur frammi fyrir,“ segir Hörður Þórhallsson, forstjóri Icepharma og Ósa í tilkynningu.