Það iðar allt af lífi á Orkureitnum á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar þessa dagana þar sem tæplega tvö hundruð starfsmenn verktakafyrirtækisins Safírs vinna að uppbyggingu 460 íbúða af ýmsum stærðum og gerðum, í fjórum áföngum.
En það eru ekki bara húsin sjálf sem rísa. Sérstök áhersla hefur verið lögð á plássið á milli bygginganna. Það er útbúið með það að markmiði að auka lífsgæði íbúa árið um kring. Fjórir vandaðir inngarðar, hver með sín sérkenni, hafa verið hannaðir af Nordicarch og eftir hugmyndafræði danska arkitektsins og prófessorsins Jan Gehl.
Í grunninn snýst nálgun Gehl um að styrkja mannlíf í borgum og byggðum og áhersla er lögð á þrenns konar athafnir í útirými: Nauðsynlegar, valkvæðar og félagslegar.
Á Orkureitnum er lögð áhersla á félagslega þáttinn.
Hönnunin er jafnframt innblásin af japönskum garðyrkjustíl með áherslu á einfaldleika, jafnvægi og náttúrulega fegurð.
Jón Heiðar Kolbrúnarson verkefnastjóri lóðafrágangs segir í samtali við ViðskiptaMoggann að um sé að ræða inngarða að evrópskri fyrirmynd. „Við erum að vinna með grænt og fjölbreytt heildaryfirbragð sem verður ólíkt öðrum almenningsrýmum borgarinnar.“
Jón segist aðspurður ekki vita til þess að aðferðir Gehl hafi verið notaðar áður hér á landi með þessum hætti. Þó hafi þessum hlutum verið gefinn meiri gaumur í seinni tíð og þá sérstaklega í tengslum við hönnun borgarlínu. Þar sé almenningsrými og verslunarrrými gjarnan tvinnað saman og flæði búið til, líkt og verið er að gera á Orkureitnum. „Við erum að sameina Skeifuna, Orkureitinn og Laugardalinn með því að búa til flæði fólks og gönguleiðir þvert í gegnum svæðið.“
Jón segir að á Orkureitnum sé einkum notast við hugmyndir Gehl er snúa að félagslegum athöfnum fólks. „Við erum að búa til íverustað þar sem þú getur staldrað við. Menn eiga það til að flýta sér of mikið. Við erum sérstaklega að reyna að búa til svæði sem fólk myndi vilja staldra við á.“
Hluti af inngörðunum er votlendissvæði og tjarnir. „Þar er opnað fyrir nýtt safn af flóru auk þess sem þetta getur laðað að sér fuglalíf. Við munum safna öllu rigningarvatni og leiða það af torfþökum húsanna niður í tjarnirnar.“
Eins og Jón sýndi blaðamanni á göngu um svæðið er einn garðanna tilbúinn og líf byrjað að kvikna. „Við erum með hitalagnir undir tjörninni. Við sjáum fyrir okkur að fólk geti vaðið út í vatnið og buslað dálítið á góðviðrisdögum.“
Garðurinn er við húsið á A-reit sem nú þegar er uppselt og fólk flutt inn í. „Íbúar geta byrjað að nota útisvæðið þó að framkvæmdir standi enn yfir allt í kring.“
Jón bendir á að á Orkureitnum sé fólk ekki einvörðungu að kaupa íbúð heldur fái það fallegan garð í kaupbæti. „Það er alltof algengt því miður að verktakar láti garðinn mæta afgangi. Hér tvinnum við allt saman og fólk fær allan pakkann um leið og íbúðin er afhent.“
Jón segir að mikið hafi verið pælt í vindálagi og -strengjum, til að skapa sem mest skjól.
Allur gróður á svæðinu er valinn í samstarfi við Gróðrarstöðina Mörk og áhersla lögð á plöntur sem yrðu bæði fallegar að sumri og hausti. „Við vildum að haustlitirnir kæmu sterkt inn. Við val á gróðrinum lögðum við áherslu á að hann væri ekki of ágengur né erfiður viðfangs í íslenskri náttúru.“
Snjóbræðsla er undir öllu og í einum inngarðinum verður gróðurhús, gosbrunnur og upphitaðir bekkir. „Við viljum framlengja útiveru fólks lengra inn í haustið og veturinn.“
Á öðrum reit er hugað að hreyfiþroska barna, m.a. með trjádrumbum sem hægt er að klöngrast yfir og leika sér í. Þriðji garðurinn leggur áherslu á slökun og íhugun í ró og næði eins og Jón útskýrir.
„Við erum að reyna að huga að fjölbreyttum þörfum íbúa, gesta og gangandi. Fólk getur farið í ólíka garða allt eftir því hvað það langar að gera á hverjum tíma.“
Aðspurður segir Jón að verkefnið sé krefjandi. „Það er sérstök áskorun að koma görðunum fyrir í því takmarkaða plássi sem er í boði. Þá er efnisvalið nokkuð sérstakt. Við erum með staðsteypt yfirborð og þurfum að laga okkur að miklum hæðarmun milli Suðurlandsbrautar og Ármúla.“
Áberandi er notkun Corten-stáls. „Þetta er endurunninn málmur sem myndar ryðgaða húð. Hann hættir svo að ryðga og verður mjög áferðarfallegur.“
Bílakjallari er undir öllu svæðinu. „Það er töluvert krefjandi því við þurfum að gæta þess að fergja ekki endalaust af jarðvegi ofan á. Oft notum við einangrun til að móta landslagið í stað jarðvegs.“
Þá segir Jón að ákveðin áskorun sé að nýta sumarið vel í framkvæmdir. Þó segir hann að verkefnið sé allt á áætlun. „Við þurftum að vera útsjónarsöm með pöntun á efni og erum búin að panta og fá afhent allt Corten-stálið. Einnig erum við komin með öll ljósin fyrir reitinn. Þau eru sérhönnuð og framleidd fyrir okkur í Danmörku. Við erum að vinna með mjúka birtu í görðunum.“
Listaverk mun einnig rísa á reitnum. „Það verður efnt til hönnunarsamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar.“
Jón nefnir einnig að vegna BREEAM- og Svansvottunar svæðisins sé endurnýting áberandi. „Við notum mikið endurunnið efni af reitnum, eins og t.d. klapparefnið sem við erum að sprengja og timbrið úr trjánum sem söguð voru niður. Það er notað í skjólgirðingar og klæðningar.“
Jón segir að Orkureiturinn sé orðinn stærsti byggingarstaður á landinu. „Við höfum tekið við keflinu af nýja Landspítalanum,“ segir Jón að lokum en samkvæmt áætlun mun framkvæmdum á Orkureitnum ljúka árið 2027.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.