Rafbílar 21% nýskráninga

Kaup á bílum virðast vera að aukast eftir umtalsverðan samdrátt …
Kaup á bílum virðast vera að aukast eftir umtalsverðan samdrátt á síðasta ári. AFP

Kaup á bílum virðast vera að aukast eftir umtalsverðan samdrátt á síðasta ári. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hefur nýskráning fólksbíla til einkanota aukist um 53% miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt gögnum Bílgreinasambandsins sem Landsbankinn greinir frá í nýrri samantekt, Hagsjá.

Heildarfjöldi nýskráðra fólksbíla hér á landi hefur aukist um 23% á milli ára, og nýskráningar hjá bílaleigum um 12%. Þetta er umtalsverður viðsnúningur frá árinu 2024, þegar skráningar fólksbíla til einkanota drógust saman um helming frá árinu á undan.

Eftir lægð í rafbílakaupum á síðasta ári virðist markaðurinn vera að ná jafnvægi á ný. Á árinu 2023 voru 39% nýskráðra bíla hreinir rafmagnsbílar, en eftir breytingar á styrkjafyrirkomulagi féll það hlutfall niður í 19% árið 2024.

Nú hefur hlutdeild rafbíla aukist á ný. Á fyrstu mánuðum ársins 2025 eru 21% nýskráðra bíla rafbílar, 21% tengiltvinnbílar, og 18% hybridbílar. Samkvæmt Landsbankanum gefur þetta til kynna að neytendur séu að aðlagast nýjum skilyrðum og hreinorkubílar að festa sig aftur í sessi á markaðnum.

Samhliða auknum nýskráningum hefur innflutningur fólksbíla aukist um 65% á milli ára í upphafi þessa árs. Þetta er afgerandi breyting frá síðasta fjórðungi 2024, þegar innflutningur dróst saman um 61%.

Samkvæmt samantekt Landsbankans, gefa ofangreindar tölur til kynna að neytendur séu að taka aftur til við stærri fjárfestingar. Eftirspurn eftir rafmagnsbílum eykst á ný og bílainnflutningur bendir til þess að bílakaup kunni að halda áfram að aukast næstu mánuði, í takt við vaxandi einkaneyslu og aukna bjartsýni á neytendamarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK