Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Í nýrri stöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands er lýst traustu fjármálakerfi, bankar séu með góða eiginfjárstöðu, sterka lausafjárstöðu og aðhaldssemi í útlánum. Engin vísbending um kerfisbundna áhættu innan fjármálageirans.
En fjármálastöðugleiki byggist ekki aðeins á útreikningum og skýrslum Seðlabankans heldur einnig á trausti. Þegar traustið á stjórnvöldum og stofnunum minnkar skipta skýrslurnar litlu máli. Stofninn stendur en er rotinn að innan.
Í síðustu viku kom í ljós að Víðir Reynisson þingmaður Samfylkingarinnar hafði bein og persónuleg afskipti af umsókn einstaklings um ríkisborgararétt. Samkvæmt fréttum hafði hann farið víða til að reyna að tryggja aðra niðurstöðu en þá sem kerfið sjálft hafði ákveðið.
Slík inngrip setja stórt spurningarmerki við mörkin milli stjórnmála og stjórnsýslu og kalla fram grundvallarspurningu um jafnræði og trúverðugleika kerfisins í heild. Þegar stjórnmálamenn beita áhrifum sínum í einstökum málum hefur það ekki einungis áhrif á einstaka mál heldur kerfið í heild.
Það sem gerir þetta mál enn alvarlegra eru ekki aðeins aðgerðir Víðis sjálfs, heldur hvernig forsætisráðherra brást við. Samkvæmt fréttum vissi Kristrún Frostadóttir af þessu svokallaða frumkvæði Víðis frá upphafi. Þrátt fyrir það nefndi Kristrún það ekki í opinberri umræðu fyrr en hún var spurð beint út í það. Samkvæmt svörum voru samskiptin einungis frá Víði sjálfum og ekki í gegnum ráðuneytið. Samt virðist erindið á einhvern hátt hafa farið í gegnum forsætisráðherra, áður en Víðir átti samskipti við ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun.
Slík viðbrögð forsætisráðherra sýna að þegar kerfið verður fyrir gagnrýni, þá ver það fyrst og fremst sjálft sig, ekki leikreglurnar sem það segist standa vörð um.
Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjármálastöðugleika 2025 er sérstaklega tekið fram að „Erosion of institutional credibility“, eða rof á trúverðugleika stofnana, sé vaxandi áhættuþáttur. Hann sé óháður hagstærðum, en tengist beint stjórnsýslu, stjórnmálalegri ábyrgð og virkni regluverksins.
Þegar stjórnmálamenn beita áhrifum sínum á þann hátt sem Víðir gerði og þegar forsætisráðherra verndar leikmanninn í stað þess að tryggja leikreglurnar, þá eru send skýr skilaboð. Það eru ekki allir jafnir og það eru ekki alltaf leikreglurnar sem gilda. Stjórnmálamenn eru ofar lögunum sem þeir setja.
Stöðugleikinn sem við byggjum á og Seðlabankinn kynnir í skýrslum sínum er ekki aðeins tryggður af fjármálafyrirtækjum og hagstjórn, heldur einnig af trausti á kerfið í heild. Þetta sama traust hverfur þegar vald er notað án ábyrgðar og ábyrgð víkur fyrir stjórnmálalegri vernd.
Svo lengi sem þeir sem fara með valdið neita að horfast í augu við vandann og standa frekar vörð um þá sem brjóta reglurnar, þá stendur þetta svokallaða traust ekki undir neinu, hversu góðar sem skýrslur Seðlabankans eru.
Það sem skiptir máli núna er ekki hvort lög hafi verið brotin, heldur hvort leikreglurnar gildi fyrir alla. Dæmi síðustu mánaða eru því miður mörg um að stjórnmálamenn lúti ekki sömu lögum og við hin. Kerfið þarf því að svara þeirri spurningu, annars er það ómarktækt með öllu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.