Alfreð mættur til Grænlands

Grænlenski athafnamaðurinn Svend Hardenberg leiðir innreið Alfreðs á Grænlandi.
Grænlenski athafnamaðurinn Svend Hardenberg leiðir innreið Alfreðs á Grænlandi. Ljósmynd/Aðsend

Atvinnuleitarappið Alfreð hefur tekið til starfa á Grænlandi. Þar er nú hægt að nálgast þjónustuna bæði í gegnum app og vef, á grænlensku, dönsku og ensku. Fyrstu starfsauglýsingarnar eru komnar í birtingu og ráðningarkerfið er klárt í að taka við umsóknum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alfreð.

„Alfreð fékk góðar móttökur í Færeyjum og því lá beint við að kanna hvort Grænlendingar vildu nýta sér þjónustu okkar,“ segir Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs, í tilkynningunni. Þjónusta Alfreðs er nú þegar í boði í Tékklandi, á Möltu og í Færeyjum, auk Íslands.

Grænlenski athafnamaðurinn Svend Hardenberg leiðir innreið Alfreðs á Grænlandi. Hann hefur gert sérleyfissamning við Alfreð um að þjónusta atvinnulífið á Grænlandi. Hardenberg er þekktur fyrir leik sinn sem grænlenski utanríkisráðherrann Hans Eliassen í dönsku sjónvarpsþáttunum Borgen.

„Áhuginn á Grænlandi og grænlensku atvinnulífi hefur sjaldan verið meiri en núna,“ er haft eftir Svend Hardenberg í tilkynningunni. „Það má gera ráð fyrir að þessi athygli skili sér í auknum umsvifum, t.d. í ferðaþjónustu,“ bætir hann við.

Samkvæmt tilkynningunni hefur kostað talsverða vinnu að snúa auglýsinga- og ráðningarkerfi Alfreðs yfir á grænlensku og dönsku.

„Núna þegar Alfreð er kominn til Grænlands þá má með sanni segja að við séum vinsælasta atvinnuleitarappið í Norður-Atlantshafi,“ segir Anna Katrín í tilkynningunni og kveðst hlakka til að fylgjast með Alfreð tengja saman fólk og fyrirtæki hjá nágrönnum okkar í vestri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK