Veruleg stefnubreyting blasir við í rekstri flugfélagsins Play verði yfirtökutilboð BBL 212 hf. samþykkt. Yfirtökuaðilarnir, undir forystu Einars Ernis Ólafssonar og Elíasar Skúla Skúlasonar, sem stefna að því að leggja fram tilboð í allt hlutafé Play að því gefnu að þeir nái að fjármagna verkefnið, kynntu í fjárfestakynningu að félagið muni hverfa frá núverandi rekstrarlíkani, með því að hætta flugi til Norður-Ameríku, færa hluta rekstrarins til Möltu og Litáen og einblína á leiguflug og sólarlandaferðir.
Í framlögðum gögnum í tengslum við yfirtökutilboðið er gert ráð fyrir að félagið verði rekið annars vegar sem Play Europe og hins vegar sem Play Iceland. Þetta félag fær nýtt flugrekstrarleyfi á Möltu og stýrir þaðan flugrekstri sem áður var á Íslandi. Play Iceland verður minni eining með fjórar vélar sem sinna flugi frá Keflavík innan Evrópu.
Samkvæmt gögnunum verður öllum flugferðum til Norður-Ameríku hætt í lok október 2025. Félagið hyggst í staðinn leigja út sex af tíu flugvélum sínum til erlendra aðila, þar á meðal til evrópskra flugfélaga og samstarfsaðila í Kósovó.
Kynning fjárfestanna dregur fram að millilandaflug frá Íslandi hafi ekki skilað ásættanlegri arðsemi, en samhliða hafi leiguflug og sólarlandaferðir í Evrópu skilað jákvæðri afkomu. Áætlað er að áherslan á leigu og Evrópuflug skili betri nýtingu og hærri framlegð.
Fram kemur í fjárfestakynningunni að upphaflegt rekstrarlíkan Play, með meginstarfsemi á Íslandi, hafi verið ósjálfbært. Með flutningi til Möltu og Litáen er ætlunin að lækka launakostnað, auka sveigjanleika og færa félagið nær helstu mörkuðum. Þetta er talið nauðsynlegur viðsnúningur í rekstri og flug til Bandaríkjanna hefur verið sérstaklega erfitt félaginu.
Í kynningu kemur fram að verið sé að draga úr flækjustigi og færa reksturinn þangað sem hann nýtist best. Ísland muni áfram gegna mikilvægu hlutverki, en með breyttum formerkjum.
Áherslan á íslenskt vörumerki og millilandaflug frá Keflavík víkur fyrir alþjóðlegri nálgun með lágmörkun kostnaðar. Þó er mikilvægt að hafa í huga að samkvæmt upplýsingum fjárfestanna verða áhafnir vélanna, sem byggja rekstur sinn á flugi frá Keflavík, íslenskar og vísað er til þess að nýbúið sé að semja við starfsmenn.
Fram kemur í kynningu að þegar nýtt rekstrarlíkan er að fullu komið til framkvæmda, þarf hver flugvél að skila um það bil 2 milljónum dala árlega til að standa undir föstum kostnaði. Gert er ráð fyrir eldsneytisverði upp á 850 dollara á tonn (sem samsvarar 725 dollurum á tonn að frádregnum gjöldum frá birgjum, flugvöllum og öðrum þriðju aðilum). Núverandi markaðsverð er 675,8 dollarar á tonn (staða 6. júní 2025).
Athygli vekur í fjárfestakynningu að viljayfirlýsing (MoU) liggi fyrir við meðalstórt evrópskt flugfélag sem felur í sér samvinnu. Umrætt flugfélag rekur áætlunar- og leiguflug til 90 áfangastaða í 30 löndum í Evrópu, Norður-Afríku, við Miðjarðarhafið og víðar, með flugflota sem telur 70 vélar. Þar mun Play veita leiguþjónustu og vinna við undirbúning á áætlunarflugi á evrópskum sólarlandamarkaði.
Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að flugfélagið hafi lýst áhuga á að eignast allt að 49% hlut í Fly Play Europe.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.