ST eignarhaldsfélag ehf., sem er hluti af samstæðu Mókolls ehf., hefur gert samkomulag um kaup á öllu hlutafé í Krafti ehf. Samningurinn var undirritaður af Birni Erlingssyni, eiganda Krafts, en kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Kraftur ehf. er söluaðili MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og nam velta þess árið 2024 um 2,4 milljörðum króna og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var um 182 milljónir króna.
Nýir eigendur hyggjast halda rekstri Krafts áfram sem sjálfstæðri einingu innan samstæðu Mókolls. Stefnt er að því að styrkja stöðu félagsins enn frekar með því að efla þjónustu og horfa til nýrra markaða.
„Við lítum á kaupin á Krafti sem einstakt tækifæri,“ segir Pétur Guðmundsson, eigandi Mókolls ehf., í tilkynningunni. „Félagið hefur byggt upp öfluga markaðsstöðu og við sjáum marga möguleika til frekari vaxtar.“
„Kraftur hóf starfsemi árið 1966 og hef ég starfað hjá félaginu í yfir fjörutíu ár og gengt starfi framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 1996. Umsvif okkar hafa aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina og vörumerkjum fjölgað. Á þessum tímamótum er ánægjulegt að afhenda keflið til nýs sterks eiganda sem hefur mikla burði til að halda áfram að þjónusta viðskiptavini okkar. Framtíðin er björt enda hefur félagið á að skipa úrvals hópi starfsfólks og býr að traustum viðskiptasamböndum til áratuga,“ er haft eftir Birni Erlingssyni í tilkynningunni.
Arion banki, BBA/Fjeldco og Deloitte veittu kaupanda ráðgjöf við viðskiptin, en KPMG var ráðgjafi seljanda.