Auðlindafélagið Amaroq Minerals hefur lokið hlutafjáraukningu að andvirði 7,6 milljarða króna og fest kaup á nýjum leyfum sem gera félagið að stærsta leyfishafa Grænlands. Fjármagnið verður nýtt til að hraða gangsetningu gullvinnslu í Nalunaq-námunni, byggja upp auðlindamiðstöð á Vestur-Grænlandi og efla rannsóknarboranir.
Að sögn forstjóra félagsins, Elds Ólafssonar, skiptir það sköpum fyrir framtíðarfjárfestingar og möguleikann á áframhaldandi vexti á svæðinu að tryggja sér slík réttindi tímanlega. Með eignarhaldi á leyfunum og tilheyrandi aðstöðu, t.d. vinnubúðum, vegum og bryggjum, sé félagið í sterkri stöðu til að þróa og byggja upp virkar námur.
„Við erum eina félagið á öllu norðurslóðasvæðinu sem byggði gullnámu í fyrra. Og við klárum það á þessu ári,“ segir Eldur. „Við höfum bæði þekkinguna og innviði, við vitum hvernig á að bora, sprengja, byggja vegi og hafnir og setja upp kerfi.“
Hlutafjáraukningin var drifin áfram af erlendum fjárfestum sem leituðu sjálfir til félagsins. Yfir 90% nýs hlutafjár kom frá stofnanafjárfestum í Evrópu og Norður-Ameríku, þar á meðal dönsku sjóðunum EIFO og Industriens Pension. Eldur segir að þessir aðilar sjái framtíðarverðmæti í lykilmálmum sem finna megi á leyfum Amaroq, á svæði þar sem m.a. Anglo American og Cobalt Metals starfa einnig.
Amaroq keypti nýlega Black Angel Mining A/S fyrir 10 milljónir dala. Svæðið var í vinnslu frá 1973 til 1990 og inniheldur a.m.k. silfur, sink og blý. Eldur segir að vinnsla á svæðinu geti hafist á ný með því að endurnýta eldri innviði. Þá séu möguleikar á samstarfi við stærri námufélög á svæðinu í kortunum.
Amaroq hefur áður talað fyrir því að nýta innviði milli svæða á Grænlandi, til að tryggja hagkvæmni og draga úr byggingarkostnaði. Eldur segir að það sé lykilatriði í rekstrarforsendum félagsins að nota sömu aðstöðu – svo sem í Nalunaq – til að vinna efni frá öðrum svæðum, eins og Nanoq eða mögulega Black Angel. Ef stærri auðlindir komi í ljós geti komið til greina að byggja upp sérhæfða vinnslu fyrir hvert svæði.
Eldur segir íslenska fjárfesta einnig hafa tekið þátt í útboðinu og þeir gegni áfram mikilvægu hlutverki. „Það skiptir máli að hafa langtíma og stöðuga fjárfesta. Mörg verkefni okkar fara í gegnum Ísland og við viljum viðhalda sterkum tengslum við íslenska hluthafa.“
Hann segir jafnframt að félagið stefni að skráningu á aðalmarkað í London til að auka sýnileika meðal alþjóðlegra fjárfesta.
Verð á gulli hefur hækkað á undanförnum misserum og hefur það áhrif á áhuga fjárfesta á félaginu. Eldur bendir á að eftirspurn eftir málmum sé að aukast á heimsvísu á sama tíma og framboðið dragist saman. Hann nefnir sem dæmi að Kína framleiði nær alla sjaldgæfa málma sem notaðir séu í hátæknibúnað, og að truflun í aðfangakeðjum hafi þegar haft áhrif á framleiðslu bíla í Bandaríkjunum.
„Þegar dollarinn hækkar hækkar gullverð líka. Það eru margir þættir – gengi, vextir, verðbólga og jafnvægi í framboði og eftirspurn, sem ýta undir verðhækkun á gulli og fleiri málmum,“ segir hann.
Í opinberri tilkynningu félagsins sagði Eldur jafnframt:
„Við erum afar ánægð með niðurstöður þessarar hlutafjáraukningar, sér í lagi vegna mikils áhuga og þátttöku frá dreifðum hópi alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Ég vil bjóða nýja hluthafa velkomna í félagið en þakka jafnframt núverandi hluthöfum fyrir áframhaldandi stuðning.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.