Samhentir kaupa Plastco

Úr húsakynnum Samhentra í Garðabæ.
Úr húsakynnum Samhentra í Garðabæ. Kristinn Magnússon

Samhentir Kassagerð hf. hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé Plastco ehf.

Í tilkynningu frá Samhentum segir að fyrirtækið sé leiðandi í framleiðslu og sölu umbúðalausna á Íslandi. Plastco er samkvæmt tilkynningunni leiðandi fyrirtæki í hönnun, sölu og þjónustu á vélbúnaði til pökkunnar þar sem áhersla er lögð á sjálfvirknivæðingu, gæði og skilvirkni.

„Með kaupum Samhentra á Plastco styrkir félagið enn frekar stöðu sína sem leiðandi fyrirtæki á Íslandi þegar kemur að sölu og framleiðslu umbúða og merkinga auk hönnunar á pökkunarferlum, sölu á pökkunarlínum og pökkunarvélalausnum,“ segir einnig í tilkynningunni. 

Keyptu Formar 2024

Þar kemur jafnframt fram að árið 2024 hafi Samhentir einnig keypt allt hlutafé Formar ehf. sem framleiðir frauðplastkassa til notkunar í matvælaframleiðslu, auk einangrunarplasts.

Samhentir hafa allt frá stofnun félagsins árið 1995 verið leiðandi fyrirtæki í sinni grein en viðskiptavinir félagsins eru mörg af stærstu sjávarútvegs-, matvæla- og lyfjafyrirtækjum landsins, auk annarra viðskiptavina. Í tilkynningunni segir að kaupin á Plastco séu mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu Samhentra og styrki enn frekar stöðu félagsins á markaði og styðji við vaxtaráform félagsins á komandi árum.

Ánægð með kaupin

 „Við erum mjög ánægð með kaupin á Plastco, erum bjartsýn á framtíð Samhentra og stefnum að því að veita áfram bestu umbúðarlausnir fyrir íslenska markaðinn. Líkt og með kaupunum á Formar, þá gera kaupin á Plastco okkur kleift að veita breiðara vöru- og þjónustuúrval til viðskiptavina okkar og þannig veita þeim þær heildarlausnir sem þeir þurfa," segir Jóhann Oddgeirsson, framkvæmdarstjóri Samhentra, í tilkynningunni.

„Eftir að hafa byggt upp og rekið Plastco ásamt fjölskyldu minni og traustu starfsfólki, sl. 37 ár, er það mér mikið gleðiefni að félagið verði nú hluti af stóru leiðandi fyrirtæki á sviði umbúðalausna á Íslandi, og það er mín trú að þar muni Plastco geta vaxið enn frekar og dafnað til allrar framtíðar,“ segir Benedikt Stefánsson, stofnandi og stærsti eigandi Plastco, í tilkynningunni.

Að lokum kemur fram að þeir starfsmenn Plastco sem byggt hafa upp starfsemi félagsins sl. 15 ár, muni allir halda áfram störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK