Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júní.
Nýjar tölur sýna að dregið hefur úr farþegaflugi í Bandaríkjunum og virðast bandarískir neytendur halda fast um pyngjuna.
FT greinir frá því að mælingar sýni að færri ferðalangar áttu leið um bandaríska flugvelli á undanförnum 90 dögum en á sama tímabili í fyrra. Þá hefur dregið úr framboði á flugferðum á Bandaríkjamarkaði, en það hefur ekki gerst síðan kórónuveirufaraldurinn náði hámarki. Einnig má greina merki minnkaðrar eftirspurnar í því að hótel- og flugmiðaverð í apríl og maí var lægra en venjulega á þessum tíma árs.
Greinendur kenna tollastefnu Donalds Trumps um þessa þróun og segja bandaríska neytendur óttast að verðbólga kunni að hækka og ástandið á atvinnumarkaði fara versnandi.
Að sögn FT kemur þessi samdráttur á óheppilegum tíma fyrir bandaríska ferðaþjónustugeirann því töluverð fækkun hefur orðið í fjölda ferðamanna frá Kanada og Evrópu. Hefur samdráttur í komum erlendra ferðamanna verið rakinn til efnahagslegrar óvissu og frétta af vandræðum ferðalanga við komuna til Bandaríkjanna. Flugferðir á milli Kanada og Bandaríkjanna voru um fjórðungi færri í maí á þessu ári en í sama mánuði í fyrra, og á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs fækkaði komum franskra og þýskra ferðamanna til Bandaríkjanna um 7%. ai@mbl.is
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.