Framleiðsla á eldislaxi í Evrópu dróst saman á fyrri helmingi ársins miðað við árið á undan að sögn Novel Sharma hjá alþjóðlega bankanum Rabobank. Sharma flutti erindi á Hringborði hafs og eldis, málþingi um stöðu og framtíð lagareldis, í Arion banka á dögunum.
Hann segir að framleiðslan ætti að taka við sér á seinni helmingi ársins og árið í heild gæti orðið það besta frá árinu 2019 ef framleiðendur ná tökum á líffræðilegum áskorunum.
Sharma segir að tollastefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta valdi áhyggjum hjá neytendum. Hún geti leitt til verðbólgu og gert neytendur varkárari í innkaupum sem aftur geti haft áhrif á neyslu á laxi.
Erindi hans á ráðstefnunni fjallaði mestmegnis um Kína sem markað fyrir lax, sem Sharma segir að sé ekki stór. „En hann hefur mikla möguleika. Lax er ekki eins vel þekkt vara í nýlenduvöruverslunum í Kína og í Evrópu.“
Það sem hefur áhrif á almenna neytendur í Kína í dag að sögn Sharma er óróleiki í efnahagsmálum, einkum vegna niðursveiflu fasteignamarkaðarins, en Kínverjar leggja gjarnan sparnað sinn í fasteignir. Þegar fasteignaverð fari niður verði neytendur varari um sig. „Kína var lengi lokað í Covid-faraldrinum og eftirspurn hefur almennt ekki farið aftur á sama stað og hún var fyrir hann. Fólk fer líka minna út að borða en fyrir faraldur sem er ákveðið áhyggjuefni.“
Sharma segir Kína vera með viðskiptahalla í viðskiptum með fisk. „Þeir sjá samt smátt og smátt virðið í innflutningi til eigin nota,“ segir Sharma en nokkuð hefur verið um innflutning á fiski til vinnslu, sem svo er fluttur aftur út. „Ég spái því að Kínverjar verði byrjaðir að flytja inn fisk fyrir 29 milljarða dala árið 2030. Það yrði aukning um 10 milljarða dala frá því sem nú er.“
Sharma segir mikilvægt til að spár gangi eftir að hagvöxtur verði áfram á bilinu 4,5–5% í landinu. „Það mun styðja við áframhaldandi innflutning á fiski til Kína. Og þó að tollastefna Trumps hafi áhrif til skamms tíma gæti landið orðið vaxtarsproti fyrir lax til langs tíma.“
Spurður um stöðu Íslands sem laxaframleiðanda segir Sharma að landið framleiði frekar lítið í alþjóðlegu samhengi. Noregur framleiði 55% af öllum atlantshafslaxi en Chile næstmest. „Það eru samt mörg flott verkefni farin af stað á Íslandi, í landeldinu til dæmis. Þið getið selt lax í meira mæli til Bandaríkjanna í fyllingu tímans.“
Sharma segir enga ástæðu til að ætla annað en að laxaframleiðsla hér á landi haldi áfram að vaxa. „Laxaframleiðsla á Íslandi var 43 þúsund tonn á síðasta ári sem er 11% vöxtur milli ára. Framleiðslan dróst saman 2023 en núna er framleiðslan komin á par við árið 2022.“
Til samanburðar má geta þess að heimsframleiðsla á eldislaxi nam 3 milljónum tonna á síðasta ári.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.