Karen Ósk Gylfadóttir framkvæmdastjóri Lyfju ræddi við ViðskiptaMoggann um rekstrarumhverfi lyfjafyrirtækja, verðlagningu lyfja og fleira.
Hún segir rekstrarumhverfið í heilbrigðisgeiranum vera krefjandi. „Það eru áskoranir í rekstri apóteka. Ríkið ákvarðar álagningu á lyfseðilsskyld lyf og hefur hún ekki tekið breytingum frá því í lok árs 2023 þrátt fyrir að stærstu kostnaðarliðir eins og laun og húsnæðisverð hafi hækkað töluvert á tímabilinu,“ segir hún. Hún nefnir einnig að kröfur Lyfjastofnunar um mönnun á Íslandi séu umfram það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
„Við viljum sinna okkar hlutverki af ábyrgð og gera það vel en það þarf líka að vera hægt að reka apótek á sjálfbæran hátt,“ segir Karen. Þrátt fyrir það sé Lyfja í nokkuð góðri stöðu, reksturinn sé stöðugur og fyrirtækið standi sterkt innan samstæðunnar Festi. Hún segir samstarfið við Festi opna á spennandi tækifæri, bæði með öðrum rekstrarfélögum innan Festi og með sterkri stoðþjónustu.
Aðspurð um framtíð Lyfju segir Karen að markmiðið sé skýrt: Að efla þjónustuna enn frekar, einnig utan höfuðborgarsvæðisins. Hún nefnir þróun nýrrar vefsíðu, betra aðgengi að vörum í gegnum netið og aðspurð segir hún að lausnir eins og bílaapótek séu á radarnum. „Við hlustum á viðskiptavininn. Ef fólk vill einfalda og snögga þjónustu þá viljum við geta boðið hana. En alltaf með þjónustuupplifun, fagmennsku og trausta heilbrigðisráðgjöf í forgrunni,“ bætir hún við.
Hún viðurkennir þó að stafræn þjónusta sé aðeins hluti af heildarmyndinni. „Í okkar geira skiptir nálægð líka máli. Fólk vill geta ráðfært sig við lyfjafræðing um viðkvæm og persónuleg mál.“
Hún leggur áherslu á að Lyfja ætli ekki að hverfa frá þjónustu við landsbyggðina, þvert á móti.
Hvað varðar samkeppni á lyfjamarkaði segist Karen telja hana jákvæða að því marki sem hún stuðli að nýsköpun og bættri þjónustu. „En þegar kemur að nýsköpun og þjónustuþróun á heilbrigðismarkaði höfum við fundið fyrir tregðu hjá hinu opinbera til að liðka um fyrir nýjungum. Við höfum til að mynda unnið að lausnum til að einfalda aðgengi að sérfræðingum með samstarfsaðilum sem fá ekki leyfi hjá hinu opinbera þrátt fyrir að sambærilegar lausnir hafi til að mynda verið starfræktar í Noregi frá 2016. Við viljum jafnan leikvöll og opið samtal við stjórnvöld þegar kemur að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu,“ segir hún.
Spurð hvernig hún sjái framtíð Lyfju fyrir sér segir hún að markmiðið sé að gera Lyfju að leiðandi fyrirtæki í heilsueflingu og ráðgjöf.
„Ekki bara apótek, heldur traustur samstarfsaðili þegar kemur að heilbrigði og bættum lífsgæðum. Við ætlum að vera fyrsta stopp í heilbrigðisferðalagi Íslendinga hvort sem það er á netinu, í símanum eða í næsta apóteki,“ segir Karen að lokum.
Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.