Fyrstu íbúðir Vetrarmýrar ehf. sem byggðar eru af Framkvæmdafélaginu Arnarhvoli ehf. í Vetrarmýri í Garðabæ eru komnar í sölu. Um er að ræða vandaðar íbúðir með loftskiptikerfi og eitt til tvö bílastæði hver íbúð. Sumum íbúðum fylgir einnig frístundaskúr og/eða bílskúr í bílakjallara.
Vetrarmýri markast af Hnoðraholti til norðurs, Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs og golfvelli GKG til austurs.
Ingi Júlíusson er hluti af teyminu sem stýrir verkefninu sem áætlað er að ljúki árið 2029. Uppbyggingin er viðamikil og skiptist í fjóra áfanga, bæði íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Ingi segir að fyrsta húsið, sem blasir nú við frá Reykjanesbrautinni, klætt marglitum leirflísum sem minna á haustlitina, gefi tóninn fyrir það sem koma skal.
„Við erum mjög ánægð með litapallettuna á húsinu. Ég hlakka til að sjá húsið í haust þegar haustlitirnir koma. Í raun hefur verið ákveðið Heiðmerkurþema í gegnum allt ferlið hjá okkur,“ segir Ingi og bendir á nálægðina við náttúruparadísina.
„Við urðum hlutskörpust í útboði árið 2021 og greiddum 3,2 milljarða króna fyrir lóðirnar. Við veltum nafninu lengi fyrir okkur, Vetrarmýri, og skoðuðum fjölda annarra tillagna. Að lokum héldum við okkur við þetta. Staðreyndin er nefnilega sú að á okkar lóðum er einungis 1-2 metrar niður á fast,“ útskýrir Ingi og bendir á yfirstandandi framkvæmdir á lóðinni þar sem vinna við annan áfanga er komin vel á veg. Honum mun svipa til þess fjölbýlis sem nú er að klárast.
Í boði eru íbúðir allt frá 50 fm og upp í 235 fermetra þakíbúðir á efstu hæð. Í miðju hússins er garður með snjóbræðslu undir gönguleiðum.
„Húsið er fjórar hæðir í samræmi við gildandi skipulag. Þó að það hafi verið freistandi að bæta einni hæð við til viðbótar hefði það hins vegar minnkað gæðin töluvert því birtan hefði ekki átt eins greiða leið inn í íbúðirnar,“ útskýrir Ingi. „Ég er mjög ánægður með þessa útkomu.“
Eldhúsinnréttingar eru vandaðar og sérsmíðaðar.
Í þakíbúðunum eru innihurðir hærri en í íbúðum á neðri hæðum, enda lofthæð mun meiri. Í loftið er strengdur dúkur í hluta rýma fyrir bætta hljóðvist. Ingi segir þetta skipta miklu máli. „Við vildum afhenda íbúðirnar með þessum hætti þar sem við teljum að hljóðvist sé eitthvað sem fólk sé sífellt að horfa meira til.“
Spurður um verð segir Ingi að fermetraverðið í þakíbúðunum sé 1,3-1,4 milljónir króna. Það þýðir að stærstu íbúðirnar munu kosta ríflega 300 milljónir króna. „En í húsinu erum við að bjóða allan skalann. Við erum líka að selja íbúðir sem kosta 900 þúsund fermetrinn, samtals á 50-60 milljónir.“
Ingi tekur sérstaklega fram að ekki verði boðnar íbúðir sem henta fyrir hlutdeildarlánakerfið.
Við þróun verkefnisins var litið til Sjálandshverfisins í Garðabæ sem Ingi telur vera mjög vel heppnað.
„Þetta verður á margan hátt svipað því hverfi. Sjálandið er vel heppnað hverfi sem margir vilja búa í. Núna nýverið kynnti Garðabær breytingu á skipulagi þar sem kemur fram að gert er ráð fyrir hjúkrunarheimili í Vetrarmýrinni en í Sjálandi hefur Jónshús, þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, verið rekið við góðan orðstír.“
Ingi segir að íbúðirnar geti hentað fólki sem hefur ákveðið að selja einbýlishús sín og breyta um lífsstíl. „Maður sér að margir eru komnir með afdrep erlendis í heitari löndum og vilja í staðinn kaupa fallega íbúð hér á landi og jafnvel sumarbústað til viðbótar. Þannig geturðu verið með ákveðna fjölbreytni í búsetu án þess í raun að fækka fermetrum. Þeir dreifast bara á fleiri staði.“
Sem fyrr sagði kostuðu lóðirnar á fjórða milljarð króna. „Mér reiknast til að við munum greiða Garðabæ á sjöunda milljarð króna bara í lóðakaup og gatnagerðargjöld.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.