Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Eftir að hafa notið sólarinnar í Króatíu í velheppnaðri árshátíðarferð starfsmanna Kviku lýsir bankinn því yfir að hann hafni erindum um samrunaviðræður frá bæði Íslandsbanka og Arion banka. Stjórnendur bankans áttuðu sig á því í sólinni að þeir væru einfaldlega meira virði.
Í yfirlýsingu sem send var Kauphöllinni kom því fram að tilboðin hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði Kviku. Þrátt fyrir að afþakka frekari samtöl núna útilokar bankinn ekki frekari viðræður síðar, að því gefnu að forsendur og virðismat verði endurskoðað.
Íslandsbanki var reiðubúinn að bjóða allt að 10% yfir markaðsvirði Kviku en þó var ekkert fast undirliggjandi verð tilgreint. Arion hafði áður sent frá sér áform um sameiningu en ekki birt forsendur né lagt fram tilboð með verðhugmynd. Það má því segja að viðræðurnar hafi hingað til einungis verið til að kanna hug Kviku almennt en ekki verið að setja fram verðmiða á Kviku annan en markaðsverð.
Viðbrögð markaðarins voru hins vegar skýr. Gengi bréfa Kviku hækkaði skarpt eftir fyrstu fréttir um mögulegan samruna og hefur haldist sterkt. Það endurspeglar trú fjárfesta á rekstur bankans og mikilvægi hans í frekari hagræðingu á íslenskum bankamarkaði.
Íslandsbanki svaraði Kviku og lýsti því yfir að þar verði farið yfir stöðuna í ljósi þess sem fram hefur komið og bendir á að hann sé tilbúinn að nýta umfram eigið fé sitt. Það má túlka sem undirbúning fyrir það að leggja fram ítarlegra og áhugaverðara tilboð, þar sé væntanlega af nægu að taka.
Þótt Kvika hafni tilboðum í bili liggur það í orðalagi tilkynningarinnar að bankinn sé tilbúinn í sameiningu en á réttum forsendum. Það sem vantar nú eru skýr svör um verðlagningu, uppbyggingu samruna og hvernig horft verður til hagsmuna hluthafa allra aðila. Þá skiptir einnig máli hvernig stjórn og yfirstjórn sameinaðs banka yrði samsett og hver stefna hans yrði til lengri tíma.
Samruni af þessu tagi þarf bæði að standast væntingar hluthafa og láta Samkeppniseftirlitið koma vel út. Það er ekki síður mikilvægt þegar litið er til aðgerða þeirrar stofnunar í samfélaginu.
Seðlabankinn setur nýjar reglur í júlí sem gætu haft áhrif á eiginfjárkröfur og hagkvæmni í sameiningum. Það gæti flýtt eða flækt viðræður, allt eftir því hvernig þær reglur eru túlkaðar í ljósi fjárhagslegra markmiða bankanna en munu sannarlega skipta máli.
Kvika er í öllu falli í lykilstöðu til að skapa mikil verðmæti fyrir réttan aðila með samruna. Markaðurinn virðist sömuleiðis hafa þá trú. Það setur þrýsting á Íslandsbanka og Arion að mæta með skýrari forsendur, raunhæfa uppbyggingu og trúverðuga leið til framtíðar.
Leikurinn virðist vera rétt að byrja.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.